SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
Nýtt
Fréttasafn
Um hrefnu
Saga hrefnuveiða
Algengar spurningar og svör
 

 

Algengar spurningar og svör

Hafa veiðar áhrif á atferli hrefnu?

Fullyrðingar um að atferli hrefnu breytist með tilkomu veiða eru algengar og því haldið fram að veiðar geti því rýrt gildi hrefnunnar sem söluvöru fyrir ferðamannaiðnað. Í því sambandi er m.a. rætt um að hrefna á Íslandsmiðum verði almennt styggari ef stofninn er undir veiðiálagi. Enginn rökstuðningur fylgir þessum staðhæfingum nema þá helst að vísað sé til þess að í Noregi séu stundaðar hrefnuveiðar, og þar sé ekki stunduð hvalaskoðun á hrefnu. Reyndar er hrefnan ein þriggja tegunda sem auglýstar eru sem meginviðfangstegundir helsta hvalaskoðunarfyrirtækis Noregs ásamt búrhval og háhyrningum. Hrefnan er annars óvíða meginviðfangsefni hvalaskoðunarfyritækja þótt algeng sé á grunnsævi og er það alveg óháð því hvort hvalveiði er stunduð á viðkomandi hafsvæðum.
Þótt þessar kenningar um fælingarmátt hrefnuveiða kunni að hljóma rökréttar út frá þekkingu manna um fugla og landspendýr liggja engar tölulegar upplýsingar fyrir um að hvalaskoðun og hvalveiðar á sömu tegund “gangi ekki upp”. Mikill vöxtur hefur verið í hvalaskoðun víða um heim og bæði hjá hvalveiðiþjóðum sem öðrum. Mikilvægt er í þessu sambandi að gera sér grein fyrir að hrefna er ekki hjarðdýr í sömu merkingu og t.d. hreindýr eða höfrungar sem ferðast sem ein heild og sýna samræmd viðbrögð og dráp á einu dýri hefur augljós fælingaráhrif á önnur dýr hjarðarinnar. Alþekkt er hins vegar, að miserfitt er að nálgast hrefnu frá einum stað eða tíma til annars. Einn greinilegur orsakavaldur í þessu efni eru fæðuskilyrði á svæðinu, en hrefna, eins og aðrir skíðishvalir, er yfirleitt róleg og ónæm fyrir utanaðkomandi áreiti við fæðunám. Engar rannsóknir benda til að hrefnur séu almennt styggari á svæðum þar sem hvalveiðar eru stundaðar en á öðrum svæðum. Í veiðigögnum hér við land sem erlendis má finna mörg dæmi þess að hrefnur hafi verið veiddar á tiltölulega afmörkuðum blettum allt sumarið og ár eftir ár, og bendir það ekki til að veiðarnar hafi mikinn fælingarmátt.

Þeirri skoðun hefur og verið haldið mjög á lofti að tilteknir einstaklingar hænist að hvalskoðunarbátunum, og að þetta séu jafnframt þau dýr sem, vegna þessa atferlis, muni fyrst verða veidd. Helst er á talsmönnum þessarar skoðunar að skilja að hér sé um að ræða sérstaka arfbundna (og arðbæra) hegðun sem veiðar muni með kerfisbundnum hætti afmá úr stofninum. Í þessu atriði er einnig vísað til Noregs og því haldið fram að þetta atferli finnist ekki hjá hrefnum við Noreg. Þetta er alrangt, því hegðun þessi (að nálgast báta) hefur lengi verið þekkt hjá hrefnu og er engan vegin einskorðað við hvalaskoðunarbáta. Oft er um að ræða ungdýr þótt ekki sé það einhlítt. Meðal íslenskra hrefnuveiðimanna voru slíkir einstaklingar kallaðir "skoðarar" með tilvísun til þess að dýrin koma að bátum og "skoða" þá um stund. Hrefnuveiðimenn víða um heim hafa nýtt sér þetta atferli dýranna um áratuga skeið án þess að merkjanlegar breytingar hafi orðið á hegðun dýranna. Samkvæmt upplýsingum helsta hrefnusérfræðings Noregs, Prófessor Tore Haug er þetta atferli ("søkere") síst óalgengara við Noreg en á öðrum hafsvæðum og getur því engan veginn talist skýring á því að hrefnan sé þar ekki eins vinsæl til skoðunar og hinar stærri hvalategundir.

Til baka

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is