SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
Nýtt
Fréttasafn
Um hrefnu
Saga hrefnuveiða
Algengar spurningar og svör
 

 

Algengar spurningar og svör

Hvers „virði” eru rannsóknirnar?

Umræðan um hvalveiðar hefur á seinni árum færst æ meira frá umhverfismálum (t.d. um sjálfbærni veiða) yfir í pólitík eftir því sem upplýsingar um ástand stofna hafa orðið áreiðanlegri. Meginástæðan fyrir allsherjarbanni Alþjóðahvalveiðiráðsins á hvalveiðum í atvinnuskyni sem tók gildi árið 1986 var óvissa um ástand flestra hvalastofna heimsins og voru aðildarþjóðir ráðsins hvattar til að nýta þau fjögur ár, sem bannið átti upphaflega að standa, til rannsókna á hvalastofnum. Þrátt fyrir að lengi hafi legið fyrir óyggjandi vitneskja um gott ástand margra hvalastofna, og reyndar bágt ástand annarra, hefur allsherjarbanninu enn ekki verið aflétt.
Á undanförnum árum hefur sama þróun hefur orðið í umræðunni hér á landi og efnahagsmál verið ofarlega á baugi. Einkum hafa tvö sjónarmið verið uppi í því sambandi.
1)áhrif hvalveiða á ferðaiðnaðinn, einkum hvalaskoðun,
2) áhrif fjölgunar hvalastofna á afrakstur fiskveiða.
Miklar upphæðir hafa verið nefndar í þessu sambandi. Samkvæmt nýlegri könnun sem samtök hvalaskoðunarfyrirtækja létu gera eru efnahagsleg áhrif hvalaskoðunariðnaðarins 1.7 milljarðar á ári. Á hinn bóginn hafa jákvæð efnahagsleg áhrif hvalveiða verið metin um 5 milljarðar á verðlagi ársins 1997. Ljóst er að mikil óvissa er varðandi forsendur beggja þessara útreikninga. Veigamikill þáttur í ofangreindum útreikningunum á þjóðhagslegri arðsemi hvalveiða byggir á mati á afráni hvala, einkum hrefnu, hér við land og hugsanlegum áhrifum þess á afrakstur þorskstofnsins. Mikil óvissa er um þessar niðurstöður, einkum vegna mjög takmarkaðra gagna um fæðu hrefnu hér við land. Í ljósi þess hve umræðan um efnahagslegar hliðar hvalveiðimála byggir á veikum grunni er afar mikilvægt að afla frekari gagna á þessu sviði, svo minnka megi óvissuna um hlutverk hrefnu í vistkerfi hafsins við Ísland, ekki síst í ljósi síaukinnar áherslu á mikilvægi fjölstofna veiðistjórnunar í hafinu. Meginmarkmið yfirstandandi rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar á hrefnu er einmitt að varpa frekara ljósi á fæðuvistfræði hrefnu við Ísland.

Til baka

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is