SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
Nýtt
Fréttasafn
Um hrefnu
Saga hrefnuveiða
Algengar spurningar og svör
 

 

Algengar spurningar og svör

Er hægt að stunda rannsóknir á hvölum án þess að deyða þá?

Notagildi mismunandi rannsóknaaðferða með tilliti til markmiða rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar á hrefnu - Því er stundum haldið fram að unnt sé að ná þeim rannsóknarmarkmiðum sem sett eru fram í rannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar á hrefnu án þess að veiða dýr til rannsókna. Í því sambandi er mikilvægt að huga að eftirfarandi atriðum:

1) Mikilvægt er í þessu sambandi að skýr greinarmunur sé gerður milli aðalmarkmiðs rannsóknanna og aukamarkmiða hennar. Rannsóknin er fyrst og fremst hönnuð og skipulögð með tilliti til þess meginmarkmiðs að varpa ljósi á fæðubúskap hrefnu á íslenska hafsvæðinu og auka skilning á vistfræðilegum tengslum tegundarinnar við aðra dýrastofna í vistkerfi hafsins við Ísland. Til að nýta sem best þau dýr sem veidd eru í rannsóknaskyni eru einnig framkvæmdar fjölþættar rannsóknir á öðrum sviðum líffræðinnar. Markmiðum sumra þessara "auka-rannsóknaverkefna" mætti ná, a.m.k. að hluta til, án þess að deyða dýrin. Þar er einkum átt við rannsóknir á sviði erfðafræði sem stunda má með einangrun erfðaefnis úr húðsýnum sem tekin eru af lifandi dýrum með lásboga. Þessi möguleiki getur þó engan veginn talist mæla gegn því að sýni sem til falla vegna fæðurannsókna séu einnig nýtt til erfðarannsókna. Meginmarkmiði rannsóknanna, ásamt langflestum aukamarkmiðum er einungis hægt að ná með veiðum á dýrum til rannsókna.

2) Þróun nýrra rannsóknaaðferða og prófun á þeim.
Mikilvægt er að lágmarka eins og unnt er óvissu í niðurstöðum þeirra rannsókna er lúta að meginmarkmiði verkefnisins, ekki síst vegna þjóðhagslegs mikilvægis þeirra spurninga sem þar eru settar fram.
Með fáeinum undantekningum hafa þær aðferðir sem ekki byggja á veiðum en sagðar eru gera sama gagn, ekki undirgengist þær ströngu prófanir sem venjulega er krafist við þróun nýrra vísindalegra aðferða. T.d. hafa þær fáu athuganir sem hafa verið gerðar á notagildi húðsýna til rannsókna á fæðu með greiningu á fitsýrum, sýnt mjög mismunandi niðurstöður. Jafnvel þótt notagildi nýrra aðferða eins og greininga á fitusýrum, ísótópahlutföllum, og sausýnum væri viðurkennt, þá skila þessar aðferðir ekki nægilega nákvæmum niðurstöðum um fæðusamsetningu til notkunar í fjölstofnalíkön þar sem taka þarf tillit til breytileika í fæðuvali í tíma og rúmi..
Hins vegar skapar rannsóknaverkefnið einstakt tækifæri til prófunar á notagildi sumra þessara aðferða t.d. þeirra er byggja á húðsýnatöku af lifandi dýrum. Þannig má bera saman niðurstöður mælinga í húð við niðurstöður hefðbundinna aðferða t.d. hvað varðar magainnihald og mengun í innri líffærum. Þess er vænst að rannsóknaverkefnið muni á þennan hátt vera mikilvægt framlag til þróunar rannsóknaraðferða sem ekki byggja á veiðum og þannig minnka þörfina á rannsóknaveiðum í framtíðinni.

3) Raunhæfi aðferðanna.
Við hönnun rannsókna þarf ávallt að taka tillit til raunhæfis þeirra hvað varðar tíma og fjármuni. Sumar þeirra aðferða sem tilnefndar hafa verið og byggja ekki á veiðum (t.d. greining einstaklinga af ljósmyndum til að ákvarða lífssöguþætti) geta gagnast vel við ákveðnar aðstæður (tiltölulega litlir og staðbundnir stofnar tegunda með góð greiningareinkenni) en eru illframkvæmanlegir í öðrum tilfellum. Til dæmis ef ákvarða á kynþroskaaldur með þessari aðferð þarf rannsóknaátakið að vera nægilega mikið til að ljósmynd náist af tilteknum einstaklingi á hverju ári frá fæðingu þangað til viðkomandi einstaklingur sést með kálf sér við hlið (aðferðin er ekki nothæf á karldýr) - og þá er kominn einn punktur í meðaltalið. Líkurnar á að ná nægilega stóru úrtaki á þennan hátt til að meta meðalkynþroskaaldur á marktækan hátt eru augljóslega hverfandi fyrir stofn eins og íslenska hrefnustofninn sem telur tugi þúsunda dýra - ekki síst þar sem lítill hluti hrefna ber einkenni sem aðgreinir þær frá hver annarri.

Í meðfylgjandi töflu er samanburður á notagildi rannsóknaraðferða sem annars vegar byggja á veiðum og hins vegar ekki. Þessi samanburður sýnir greinilega að til að ná heildarmarkmiðum rannsóknaverkefnisins er nauðsynlegt að fram fari krufning á ákveðnum fjölda dýra. Hins vegar kemur einnig fram, að suma þætti rannsóknanna má framkvæma án þess að til komi veiðar. Í þeim tilfellum er "óbanvænum" aðferðum beitt og er heildarverkefnið því blanda af þessu tvennu. Við val á rannsóknaaðferðum var einkum litið til þess að fá sem áreiðanlegastar niðurstöður innan þess ramma sem tími og fjármunir setja.

Til baka

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is