SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR

Nýtt
Fréttasafn
Um hrefnu
Saga hrefnuveiða
Algengar spurningar og svör
 

 

Fréttir

9. nóvember 2005
Rannsóknir á líffræði hrefnu 2005

Sumarið 2005 voru alls veiddar 39 hrefnur vegna rannsóknaverkefnisins. Þrír bátar voru leigðir til veiðanna: Njörður KÓ, Halldór Sigurðsson ÍS og Dröfn RE og voru veiðar stundaðar allt í kringum landið á tímabilinu 4. júlí til 17. ágúst 2005. Veiðunum var dreift á níu rannsóknarsvæði allt umhverfis landið. Sýnasöfnun og önnur gagnaöflun gekk nokkuð vel, þótt óhagstætt tíðarfar hafi tafið veiðarnar á tímabili. Dreifing hrefnu við landið virtist nokkuð frábrugðin því sem var í flugtalningum í júlí á tímabilinu 1986-2001. Lítið var um hrefnu á ýmsum svæðum þar sem tegundin er venjulega algeng á þessum árstíma einkum fjarri ströndum og hnappdreifing var áberandi í útbreiðslunni. Einnig virtist fuglalíf minna áberandi og er það í samræmi við fréttir um bága afkomu sjófugla í sumar. Vegna þessara, að því er virðist, sérstöku aðstæðna, reyndist ekki unnt að dreifa veiðinni að því marki sem stefnt hafði verið að.

Meginmarkmið rannsóknanna er að afla grunnupplýsinga um fæðuvistfræði hrefnu á landgrunni Íslands en auk fæðurannsókna eru gerðar fjölþættar aðrar rannsóknir á hverri veiddri hrefnu, t.d. á sviði erfðafræði, heilsufræði, æxlunarlíffræði, orkubúskapar og lífeðlisfræði. Ásamt Hafrannsóknastofnuninni koma vísindamenn frá Rannsóknastofnun Fiskiðnaðarins, Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, Landspítala Háskólasjúkrahúsi, Iðntæknistofnun og Geislavörnum Ríkisins að rannsóknunum auk erlendra rannsóknastofnana.
Alls hafa nú verið veiddar hundrað hrefnur vegna rannsóknanna og er gagnasöfnun því hálfnuð. Gert er ráð fyrir að bráðabirgðaniðurstöður úr þessum fyrri helming rannsóknanna verði lagðar fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins sumarið 2006.

  

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is