SAGA HREFNURANNSÓKNA
ÁTAK Í HREFNURANNSÓKNUM
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
Markmið
Rannsóknirnar
  >Fæðuvistfræði
    >>Fæðusamsetning
    >>Orkubúskapur
    >>Árstíðabreytileiki
    >>Fjölstofnalíkan
Framvinda
Stofnanir og samstarfsaðilar
 

 

Fæðuvistfræði

Samfara fullnýtingu fiskistofna, hefur á undanförnum áratugum verið vaxandi áhugi innan fiskifræðinnar á svokölluðum fjölstofnarannsóknum, þ.e. vistfræðilegu samspili tegundanna í fæðuvef sjávar. Langtímamarkmið slíkra rannsókna er oftast að bæta stjórnun á nýtingu fiskistofna og annarra auðlinda sjávar. Fjölstofnasamspil er í eðli sínu mjög flókið og rannsóknir á því sviði skammt á veg komnar. Þessar rannsóknir verða aldrei svo fullkomnar að hægt sé að taka alla þætti vistkerfisins til greina og spá fyrir um allar hugsanlegar víxlverkanir, enda er það ekki tilgangur þeirra. Á hinn bóginn er með þessum rannsóknum leitast við að rannsaka vistfræðilegt umhverfi nytjategunda sjávar með það fyrir augum að öðlast betri skilning á helstu áhrifavöldum í afkomu þessarra stofna. Hér við land eru rannsóknir þessar lengst komnar varðandi samspil þorsks, loðnu og rækju og er þegar farið að taka tillit til þeirra í veiðiráðgjöf.

Í ljós hafa komið skýr tengsl milli stærðar loðnustofnsins og vaxarhraða þorsks. Stærð loðnustofnsins ræður því miklu um afrakstur þorskstofnsins. Einnig hefur komið í ljós að þorskstofninn hefur mikil áhrif á nýliðun og afrakstur rækjustofna, enda étur þorskur mikið af rækju. Lífslíkur rækju eru því háðar stærð þorskstofnsins en þorskurinn er ekki svo háður rækju sem æti að það hafi greinanleg áhrif á vaxtarhraða hans. Slík tengsl lýsa aðeins broti af þeim flóknu fæðutengslum sem ríkja meðal sjávardýra, en sýna samt greinilega að nauðsynlegt er að taka tillit til þeirra við fiskveiðiráðgjöf.

Fjölstofnalíkön hafa verið notuð um alllangt skeið til að meta samspil lífvera í sjó. Slík líkön geta verið af ýmsu tagi, frá því að vera einföld og/eða sértæk fyrir fáeinar tegundir upp í flókin almenn líkön sem unnt er að nota í víðtækara samhengi. Einn af stærstu óvissuþáttum í nákvæmni slíkra líkana er takmörkuð þekking á þætti sjávarspendýra í vistkerfinu. Endurteknar hvalatalningar á íslenska hafsvæðinu á undanförnum árum sýna að hvalir eru umtalsverður hluti lífmassa í vistkerfisins á svæðinu. og bráðabyrgðaútreikningar hafa gefið vísbeningar um að breytingar á stærð sumra hvalstofna geti haft marktæk áhrif á afrakstur fiskistofna. Þessir útreikningar eru hins vegar mjög óvissir og er helsti óvissuþáttur þeirra takmörkuð þekking á fæðunámi hrefnu. Til að auka nákvæmni líkansins er nauðsynlegt að efla þekkingu á: fæðusamsetningu, orkubúskap (orkuþörf), og árstíðabreytileika á fjölda og dreifingu hvala.

Til að meta samspil hrefnu og annara lífvera verður notast við forritið Gadget. Forritið verður matað tölulegum upplýsingum úr hrefnurannsóknunum og síðan notað til að byggja upp líkön sem lýsa fyrst hegðun hrefnunnar, göngum og vexti. Fyrirliggjandi líkön sem lýsa öðrum tegundum (m.a. þorski) verða síðan tengd hrefnulíkaninu og þá verður vöxtur hrefnunnar látinn byggja á áti hennar af öðrum tegundum.

Árið 1997 voru birtir frumútreikningar á afráni þeirra 12 hvalategunda sem finnast reglulega hér við land út frá bestu fánlegu upplýsingum um stofnstærðir, fæðusamsetningu, viðverutíma og orkuþörf (sjá mynd). Samkvæmt þeim éta þessir hvalastofnar sem halda sig að stærstum hluta innan íslenskrar lögsögu rúmlega 6 milljónir tonna af sjávarfangi árlega, þar af tæplega 3 milljónir tonna af krabbadýrum, rúmlega 1 millj. tonn af smokkfisktegundum og rúmlega 2 millj. tonna af fiskmeti.<p>

Hrefnan er atkvæðamesti afræninginn bæði hvað varðar heildarmagn (2 millj. tonna) og fiskát (1 millj. tonn), en þó er sú niðurstaða óvissu háð þar eð fyrirliggjandi þekking um fæðuval hrefnu hér við land er mjög af skornum skammti.

Til baka

 

 

Heim
www.hafro.is
Hafrannsóknastofnunin | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | @: hafro@hafro.is