Hafrannsóknastofnun
Eitt af markmiðum Hafrannsóknastofnunar er að afla þekkingar um lögun, gerð og jarðfræðilega eiginleika landgrunnsins, einkum með tilliti til fiskveiða.

Árið 2000 réðist stofnunin í viðamikið verkefni um kortlagningu hafsbotnsins í kjölfar tilkomu hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar RE 200, en skipið er búið fjölgeisladýptarmæli (e. multibeam echo sounder - Simrad EM 300, 30 kHz, 2°x2°).

Með mælinum er hægt að kortleggja hafsbotninn af mun meiri nákvæmni en með hefðbundnum dýptarmæli.

Tækið hentar best á 100 - 3000 metra dýpi. Upplýsingar fást um lögun og gerð hafsbotnsins með nákvæmum dýptarlínu-, sólskugga- og þrívíddarkortum auk botngerðarkorta.

Markmið verkefnisins er að kortleggja á nákvæman hátt lögun hafsbotnsins innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Þekkingin nýtist við rannsóknir á lífríki hafsins, eðliseiginleikum sjávar og jarðfræði hafsbotns. Kortlagning veiðislóða og viðkvæmra búsvæða (s.s. kórala) gegnir veigamiklu hlutverki.

Hafrannsóknastofnun veitir almennan aðgang að fjölgeislamæligögnum um kortlagningu hafsbotnsins á eftirtöldum svæðum:

Arnarfjörður
Drekasvæði
Hali Dohrnbanki
Ísafjarðardjúp
Kötluhryggir
Lónsdjúp
Reykjaneshryggur og nágrenni
Sunnan Skerjadjúps
Vesturdjúp
Víkuráll

Heimilt er að birta fjölgeislagögn eða -kort sem fengin eru af þessari vefsíðu enda skal uppruna þeirra getið.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þau svæði sem hafa verið kortlögð með fjölgeislamælingum á árunum 2000-2016.

Stækka kort

Hluti mæligagna frá svæði á Reykjaneshrygg er hér birtur með leyfi Starfshóps um greinargerð til landgrunnsnefndar S.Þ.