Hafrannsóknastofnun

24. jún. 2004
Skötuselur merktur við Ísland

Þann 19. maí sl. var skötuselur merktur í fyrsta sinn hér við land. Merkingin fór fram í rannsóknaskipinu Dröfn norðvestur af Eldey. Þann 1. júní endurheimti netabáturinn Ósk KE fyrsta skötuselinn norðvestur af Garðskaga, tæpar 14 sjómílur frá merkingarstaðnum.

Merkingarnar eru hluti af fjölþjóðlegu rannsóknaverkefni um skötusel, en áður hafði skötuselur verið merktur við Hjaltland í tengslum við verkefnið. Tuttugu skötuselir voru merktir með rafeindamerkjum frá Stjörnu-Odda, sem mæla og skrá tíma, dýpi og sjávarhita auk þess sem nokkur fjöldi var merktur með venjulegum plastmerkjum. Í þá fiska sem merktir voru með rafeindamerkjum var sprautað merkiefni sem sest í kvarnir og beinvefi og hægt er að greina síðar í árhringjum við aldurslestur. Efnið er skaðlaust en gerir fiskinn þó óæskilegan til neyslu í nokkra mánuði eftir sleppingu. Af þessum sökum er mikilvægt að sjómenn sem endurheimta rafeindamerki skili fiskinum heilum til Hafrannsóknastofnunarinnar. Fundarlaun fyrir hefðbundin plastmerki eru 1000 kr. og 4000 fyrir rafeindamerki. Í seinna tilfellinu er æskilegt að varðveita fiskinn og koma honum heilum til Hafrannsóknastofnunarinnar.

Í tengslum við áðurnefnt fjölþjóðasamstarf merktu Skotar mikið af skötusel með venjulegum örvamerkjum við Hjaltland sumarið 2001. í lok maí endurheimti togskipið Frár frá Vestmannaeyjum skötusel úr þessari merkingu, við Ingólfshöfða. Annar endurheimtis við Færeyjar, en aðrir reyndar mest í kringum Hjaltlandseyjar. Erfðarannsóknir höfðu sýnt að skötuselsstofnar við Noreg, Skotland, Færeyjar og Ísland eru náskyldir. Merkingarverkefnið er m.a. liður í því að ráða þá gátu hvernig á þessum skyldleika stendur; hvort ungviði berst milli landa eða hvort fullorðnir fiskar ganga hér á milli. Margt bendir til að hvorutveggja gæti verið tilfellið og nú hefur fengist staðfest að eitthvað sé um göngur milli landa, sem reyndar var talið ólíklegra heldur en hitt - að ungiviði bærist á milli.

Sem fyrr segir endurheimti netabáturinn Ósk KE fyrsta skötuselinn 13 dögum eftir merkinguna hér við land.
Það merkilegasta sem lesa má úr gögnunum eru ferðir skötuselsins upp í sjó. Hingað til hefur verið talið að skötuselurinn væri að mestu botnfiskur en engin vitneskja eða þekking hefur legið þar að baki önnur en almenn ályktun, þar sem fiskurinn er ekki með sundmaga. Sú staðreynd að hann hefur fengist á túnfiskflotlínu í miðju hafi suður af landinu bendir hinsvegar til þess að skötuselurinn eigi það til að bregða sér upp í sjó.

Merkið er forritað þannig að það mælir á 10 mínútna fresti í tvo daga og síðan mælir það á þriggja stunda fresti næstu tvo. Með þeim hætti endist það í liðlega tvö ár. Á línuritinu hér að neðan sést að fiskurinn bregður sér einn daginn af 117 m dýpi upp á 18 m. Þetta á sér stað kl. 22 að kvöldi hins 26.5. og fiskurinn er síðan að dóla uppi í sjó allt fram að hádegi næsta dag. Einmitt á þessum tíma er merkið aðeins að mæla á þriggja tíma fresti þannig að vel kann að vera að skötuselurinn hafi brugðið sér enn grynnra án þess að merkið hafi náð að skrá slíkt. Um kl. hálfníu næsta kvöld er hann að skríða upp kant og botndýpið er komið úr 117 m í 100 m. Á tveimur til þremur tímum byrjar fiskurinn nú að dóla sér upp á 30 m dýpi en kl. liðlega eitt að morgni hins 28. kafar hann skyndilega. Merkið er á þeim tíma í þéttmæliham og nær að skrá 43 m dýpkun á 10 mínútum. Nokkru áður en skötuselurinn brá sér langt upp í sjó skreppur hann tvær stuttar ferðir frá botni. Þann 23. kl 18:20, þegar fiskurinn er á 117 m dýpi, bregður hann sér 8 m upp og 10 mínútum síðar er hann aftur við botn. Sama gerist næsta kvöld kl 20:40.Athygli skal vakin á reglulegum, litlum sveiflum bláu dýpislínunnar tvisvar á sólarhring, en hér skráir merkið mjög greinilega sjávarföllin á svæðinu vestan við Reykjanes þar sem fiskurinn hélt sig. Nú er einmitt verið að vinna að forriti sem getur nýtt sér slíkar upplýsingar til þess að staðsetja merktan fisk, þó að sú staðsetning sé nokkuð gróf. Staðsetningin er fundin með þessari vel tímasettu sjávarfallabylgju sem borin er saman við mismunandi, en vel þekktan sjávarfallatíma á mismunandi stöðum við landið.

Að lokum skal þess getið að humarbáturinn Jóhanna ÁR 200 endurheimti annan skötusel með rafeindamerki á Eldeyjarsvæðinu á svipuðum tíma en sá var farinn að rotna. Gögn merkisins virðast sýna að hann hefur að líkindum drepist strax eftir merkingu en alltaf má búst við einhverjum slíkum afföllum.

» til baka