HafrannsóknastofnunSprettfiskur (Pholis gunnellus) er 15 til 25 cm langur, þunnvaxinn fjöru- og grunnsævisfiskur. Á sumrin má finna hann með því að velta við steinum í fjörum en erfitt getur verið að handsama hann því hann er slímugur og sleipur og getur tekið eldsnöggan sprett til að koma sér í felur undir þangið. Á veturna færir sprettfiskurinn sig niður fyrir fjöruna og niður á grunnsævið. Sprettfiskurinn hrygnir um miðjan vetur. Hrygnan hrygnir eggjunum í kökk sem hún þjappar saman í reglulega kúlu. Foreldrarnir hringa sig utan hrognakúluna og gæta hennar þar til hrognin klekjast.