HafrannsóknastofnunKuðungakrabbi (Pagurus bernhardus) lifir á grunnsævi og býr í yfirgefnum kuðungum lindýra. Gripklær krabbans eru misstórar og er sú hægri stærri og öflugri en sú vinstri. Þegar kuðungakrabbinn verður fyrir styggð dregur hann sig inn í kuðunginn og notar hægri klóna til að loka fyrir opið. Eftir því sem krabbinn stækkar þarf hann að velja sér stærri og stærri kuðung til búsetu. Litlir kuðungakrabbar finnast oft í kuðungum eins og t.d. þangdoppum, en stórir kuðungakrabbar búa í kuðungum stórra tegunda eins og t.d. kuðungum beitukóngs. Kuðungakrabbi veiðir sér smádýr af botninum til matar en getur einnig lifað á smáum svifdýrum sem hann síar úr sjónum.