Hafrannsóknastofnun
Rannsóknir stofnunarinnar fara fram á þremur rannsóknasviðum: Sjó- og vistfræðisviði, Nytjastofnasviði og Veiðiráðgjafarsviði.

Rannsóknir Sjó- og vistfræðisviðs beinast að umhverfisskilyrðum á sjónum, jarðfræði, vistfræði sjávargróðurs, dýrasvifs, fisklirfa, fiskseiða og botndýra. Meðal umfangsmikilla verkefna á Sjó- og vistfræðisviði eru rannsóknir á hafstraumum, frumframleiðni svifþörunga, líffræði rauðátu og þorskhrygningu og klaki. Einnig er nú unnið að umfangsmiklu verkefni sem miðar að kortlagningu sjávarbotns. Þá hafa vistfræðileg verkefni tengd umhverfismati sífellt verið að aukast.

Á Nytjastofnasviði eru stundaðar rannsóknir á öllum nytjastofnum sjávar. Verulegur hluti starfsins felst í stofnstærðarrannsóknum og mati á áhrifum veiða á fiskstofna. Dæmi um umfangsmikil verkefni eru árleg stofnmæling botnfiska (togararall að vori og hausti), mælingar á stærð stofna innfjarða- og úthafsrækju, humars og hörpudisks. Bergmálsmælingar á stofnstærð loðnu og síldar eru einnig stór verkefni sem unnin eru árlega á rannsóknaskipum. Þá hefur á undanförnum árum meðal annars verið unnið að umfangsmiklum rannsóknum á fæðunámi og fæðusamkeppni nytjastofna á Íslandsmiðum.

Veiðiráðgjafarsvið annast úttektir á ástandi nytjastofnanna og undirbúning ráðgjafar til stjórnvalda um aflahámark. Þá annast sviðið útgáfu árlegrar skýrslu um nytjastofna sjávar og aflahorfur.

Tæknideild og Bókasafn eru mikilvægar stoðdeildir stofnunarinnar. Tæknideild sér um uppsetningu, prófun og viðhald rannsóknatykja. Þá taka starfsmenn hennar þátt í leiðöngrum þar sem sérstök þörf er á tækniþekkingu.