Hafrannsóknastofnun
Til rannsókna á nytjastofnum teljast allar rannsóknir á fiskum, krabbadýrum, auk rannsókna á hvölum, flökkustofnum og skeldýrum sem nýttar eru á Íslandsmiðum auk rannsókna á flökkustofnum og vannýttum tegundum.

Stofnstærðarrannsóknir á helstu nytjastofnum skipa stærsta þáttinn í verkefnum nytjastofnasviðs. Sýni eru tekin með skipulegum hætti úr afla hinna ýmsu tegunda og einstaklingarnir lengdarmældir, vigtaðir, og kyn- og kynþroskastigsgreindir. Þar sem það á við eru tekin kvarna- eða hreisturssýni sem síðan eru notuð til að aldursákvarða hvern einstakling.

Þar sem upplýsingar liggja fyrir um landaðan afla má því með ofangreindri sýnatöku skipta aflanum niður í fjölda og þyngd eftir stærð og aldri.
Auk sýnatöku úr afla og rannsókna á afla á sóknareiningu (t.d. kg af þorski á klst. með botnvörpu) sem tekið er saman úr afladagbókum fiskiskipa, fara einnig fram umfangsmiklar athuganir óháðar afla fiskiskipa svo sem stofnmælingar á botnfiskum og rækju ("röll") og stofnmælingar á uppsjávarfiskum með bergmálstækjum.

Ofangreindar upplýsingar eru síðan nýttar í mismunandi stofnstærðarlíkön til að meta ástand hinna ýmsu nytjastofna.

Aðrar rannsóknir beinast m.a. að atferli og göngum fiskistofna með merkingum og samspili tegunda varðandi fæðu- og vaxtarrannsóknir. Þá er jafnan stefnt að því að draga sem mest úr veiðum á yngsta og verðminni hluta stofnanna með bættum veiðarfærum og friðun uppeldissvæða auk svæðalokana á hrygningartíma.