Hafrannsóknastofnun

KOLMUNNI

Mynd: ©Jón Baldur Hlíðberg - www.fauna.is

Micromesistius poutassou (Risso, 1826)

Heimkynni kolmunnans eru í Norðaustur-Atlantshafi frá Svalbarða suður til Marokkó og inn í Miðjarðarhaf. Þá finnst hann við Grænland og undan ströndum Kanada og Bandaríkjanna.

Kolmunninn finnst allt í kringum Ísland, einkum undan Suðaustur-, Suður- og Suðvesturlandi. Mikið er um smáan kolmunna á sumrin og haustin við suður- og vesturströndina. Djúpt út af Austfjörðum verður vart kolmunna úr göngunni miklu frá hrygningarstöðvunum vestan og norðvestan Bretlandseyja á leið sinni norður á bóginn í ætisleit og til baka til hrygningarstöðvanna á haustin.

Fullorðinn kolmunni er úthafs-, miðsævis- og uppsjávarfiskur en yngri fiskar halda sig mikið við botninn. Kolmunninn er á ýmsu dýpi, allt frá yfirborði niður á meira en 1000 metra dýpi. Kynþroska fiskar eru algengastir á 200-400 metra dýpi en ókynþroska fiskar eru grynnra.

Fæða kolmunna er einkum smákrabbadýr eins og ljósáta og krabbaflær, fiskseiði og stærri kolmunnar éta einnig smáfiska. Ránfiskar sem éta kolmunna eru einkum ýmsir stærri fiskar, eins og þorskur, ýsa, langa og ýmsar smáháfategundir.

Kolmunninn verður kynþroska 2-7 ára gamall og getur náð 20 ára aldri.