Hafrannsóknastofnun

KÚFSKEL

Mynd: ©Jón Baldur Hlíðberg - www.fauna.is

Arctica islandica (Linnaeus, 1767)

Kúfskel lifir í norðanverðu Norður-Atlantshafi. Við Ísland má finna kúfskel í öllum landshlutum. Hún lifir í sand- eða leirbotni. Mest er um hana á sandbotni frá 5 m dýpi niður á um 50 m dýpi. Hún hefur þó einnig fundist í fjöru og á djúpbotninum allt niður á um 2000 m dýpi.

Kúfskeljarnar verða flestar kynþroska þegar þær eru 5 til 6 cm á hæð og um 20 til 25 ára gamlar Elstu skeljar sem hafa verið aldursgreindar hér við land eru yfir 200 ára gamlar. Vöxtur kúfskeljarinnar er hægur, oftast aðeins brot úr millimetra á ári. Við 50 til 100 ára aldur er kúfskelin orðin 8 til 10 cm á hæð að meðaltali. Kúfskelin liggur niðurgrafin í botninn, oftast þannig að skelröndin með inn- og útstreymisopunum stendur nokkra millimetra upp af botninum. Skelin getur þó einnig grafið sig dýpra niður og stundum má finna lifandi skeljar á 15 til 20 cm dýpi ofan í botninum og virðist hún þá geta hætt að anda, jafnvel í nokkra daga.

Uppistaðan í fæðu kúfskeljarinnar eru svifþörungar. Kúfskelin dælir sjó í gegnum sig. Sjórinn fer inn um innstreymisop, inn undir möttulinn og út um útstreymisopið. Fæðuagnir sem berast með sjónum festast í slími á tálknum skeljanna, þaðan berast þær með bifhárum að munnopinu og eru étnar. Kúfskelin er étin af ýmsum fiskum og virðast þorskur og ýsa vera þar stórtækust og éta þá aðallega smáa skel. Steinbítur tekur einnig nokkuð af kúfskel og getur hann bruðið allstóra skel.