Hafrannsóknastofnun

LANGLÚRA

Mynd: ©Jón Baldur Hlíðberg - www.fauna.is

Glyptocephalus cynoglossus (Linnaeus, 1758)

Heimkynni langlúru eru í Norður-Atlantshafi. Í Norðaustur-Atlantshafi er hún frá Múrmansk í norðri og suður í Biskajaflóa. Í Norðvestur-Atlantshafi er hún við Grænland og Norður-Ameríku frá Labrador suður til Þorskhöfða. Útbreiðsla langlúru er allt í kringum Ísland. Mest er um hana sunnan- og vestanlands allt frá Berufjarðarál til Breiðafjarðar en minna norðanlands og sáralítið austanlands.

Langlúra er botnfiskur og heldur sig mest á leir- og sandbotni. Hún hefur fundist allt niður á 1400 metra dýpi en hér hefur hún veiðst á 25-500 metra dýpi. Algengust er hún á 50-300 metrum.

Fæða langlúru er einkum burstaormar, smákrabbadýr, smáskeldýr og slöngustjörnur. Ýmsir smáfiskar eins og t.d. sandsíli og mjónar verða henni einnig að bráð. Dýr sem éta langlúru eru fyrst og fremst ránfiskar eins og þorkur og ufsi.

Vöxtur er hægur og vaxa hrygnur hraðar en hængar. Sennilega nær langlúran um 14-16 ára aldri hér við land.