Hafrannsóknastofnun

SANDKOLI

Mynd: ©Jón Baldur Hlíðberg - www.fauna.is

Limanda limanda (Linnaeus, 1758)

Heimkynni sandkola eru í Norðaustur-Atlantshafi. Hann veiðist ekki við Grænland og Norður-Ameríku. Við Ísland er sandkoli víða mjög algengur. Mest er um hann í Faxaflóa, undan Suðvesturlandi og við Suðurströndina austur að Stokksnesi. Fyrir norðan land er hins vegar lítið af honum og fyrir austan land er hann sjaldséður.

Sandkolinn er botnfiskur sem heldur sig mest á sand- og leirbotni allt frá fjöruborði og niður á 150 metra dýpi og dýpra, en algengastur er hann á 20-40 metra dýpi. Hann heldur sig oft mjög grunnt og nálægt landi innan um þarann og verður stundum eftir í fjörupollum þegar fjarar. Hann heldur frá ströndinni á veturna þegar kólna tekur og út á dýpra vatn, en gengur síðan nær landi að vori þegar hlýna fer.

Fæða sandkolans er einkum loðna og síli en einnig étur hann með góðri lyst alls konar hryggleysingja eins og skeldýr, burstaorma, slöngustjörnur og krabbadýr sem álpast upp í sandkolann þar sem hann liggur á botninum niðurgrafinn í sandinn eða leirinn og er illgreinanlegur af fórnardýrum sínum sem eru að leita sér skjóls í holum eða öðrum afdrepum.

Óvinir sandkolans eru margir í náttúrunni og verður hann ýmsum stærri fiskum að bráð, m.a. þorski. Þá á landselur erfitt með að láta sandkolann í friði og skarfur étur einnig gjarnan sandkola.

Vöxtur sandkolans er mestur fyrstu árin. Hængar verða fyrr kynþroska eða 10-15 cm og 2-3 ára en hrygnur 14-20 cm og 3-4 ára. Sandkoli getur náð a.m.k. 14 ára aldri en 4-8 ára fiskar (15-35 cm langir) eru algengastir í afla veiðiskipa.