Hafrannsóknastofnun

SKRÁPFLÚRA

Mynd: ©Jón Baldur Hlíðberg - www.fauna.is

Hippoglossoides platessoides (Fabricius, 1780)

Heimkynni skrápflúru eru beggja vegna Norður-Atlantshafs. Í Norðaustur-Atlantshafi er undirtegundin Hippoglossoides platessoides limandoides í Norður-Íshafi og Barentshafi frá Svalbarða og Karahafi suður að Ermarsundi. Við Grænland og vesturströnd N-Ameríku allt til Þorskhöfða er undirtegundin H. platessoides platessoides.

Skrápflúra finnst allt í kringum Ísland og er hún víða mjög algeng. Einna mest er af henni fyrir norðan og norðaustan land og fyrir sunnanverðu landinu, einkum á grunnslóð.

Skrápflúran er botnfiskur og heldur sig einkum á leir- og leðjubotni en einnig á sandbotni á 10-500 metra dýpi.

Fæða skrápflúrunnar er mest allskonar botndýr eins og slöngustjörnur, skeldýr, burstaormar, krabbadýr, t.d. kuðungakrabbar, sniglar, en einnig fiskar, t.d. sandsíli, loðna og fiskseiði.

Vöxtur er frekar hægur og vaxa hrygnur hraðar en hængar og verða eldri. Skrápflúran getur orðið a.m.k.16 ára hér við land en við Noreg a.m.k. 19 ára.