Hafrannsóknastofnun

STEINBÍTUR

Mynd: ©Jón Baldur Hlíðberg - www.fauna.is

Anarhichas lupus (Linnaeus, 1758)

Heimkynni steinbíts eru í Norðausturur-Atlantshafi frá Svalbarða suður í Biskajaflóa. Þá er hann við Austur- og Vestur-Grænland, við austurströnd Norður-Ameríku frá Labrador suður til Þorskhöfða og jafnvel Nýju-Jersey. Steinbítur er allt í kringum Ísland einkum við Vestfirði en einnig er hann býsna algengur víða fyrir austan land og sums staðar við Suðvestur- og Suðurland. Undan Norður-, Norðaustur- og Austurlandi er mikið um smáan steinbít.

Steinbíturinn lifir allt frá nokkurra metra dýpi niður á 400-500 metra dýpi. Hann er algengastur á 40-180 metrum. Steinbíturinn er botnfiskur sem heldur sig mest á leir- eða sandbotni en einnig á hörðum botni.

Fæða steinbíts er mest alls konar botndýr. Steinbítur étur skeldýr eins og öðu og kúfisk en einnig krabbadýr, snigla, ígulker og fiska, t.d. loðnu og marga fleiri. Óvinir steinbítsins eru margir, t.d. hákarl, og stórlúða. Þorskurinn étur smáan steinbít. Selir og smáhveli láta hann heldur ekki í friði.

Egg steinbítsins er hrygnt í kökk eða kúlu sem fest er við botn eftir að hængurinn hefur frjóvgað eggin í hrygnunni. Hængurinn gætir síðan eggjanna og ver fyrir hverskonar ágangi. Steinbíturinn verður kynþroska þegar hann er 9-10 ára. Um hrygningartímann missir hann tennurnar og er tannlaus um tíma og étur ekkert á meðan. Þegar nýjar tennur eru komnar og orðnar fastar í janúar og og febrúar, hefst át að nýju. Þá heldur steinbíturinn upp á grunnslóð í fæðuleit. Steinbíturinn getur náð meira en 20 ára aldri. Elsti steinbítur sem aldursákvarðaður hefur verið af Íslandsmiðum reyndist vera 24 ára gamall.