Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Almennt um rannsóknir
Nytjastofnar
Kortlagning hafsbotnsins
Sjórannsóknir
Fæðuhættir og fjölstofnatengsl
Fiskmerkingar
Eldi
Hvalir
Áhrif veiðarfæra á hafsbotn
Vöktun eiturþörunga
Dýrasvif
Firðir og grunnsævi
HELSTU NYTJASTOFNAR:
SKARKOLI
Fæðuhættir og fjölstofnatengsl
Rannsóknir á fæðuháttum fiska, og annarra dýrastofna í hafinu, hafa verið stundaðar hér við land um árabil. Fæðuhættir fiskstofna hafsins eru mjög fjölbreytilegir hér við land sem annars staðar.

Almennt gildir þó að bráðin stækkar með vaxandi stærð fisksins sjálfs. Uppsjávarfiskar eins og loðna, síld og kolmunni lifa að mestu leyti á dýrasvifi allt æviskeið sitt, en aðeins að takmörkuðu leyti á öðrum fiski.

Um botnlæga fiska gildir hinsvegar að krabbadýr, sviflæg eða botnlæg, eru algengasta bráðin fyrstu árin, en síðan verður önnur bráð algengari. Ýmsir fiskar, eins og þorskur, grásleppa eða lýsa, fara þó að éta aðra fiska, einkum loðnu eða sandsíli í vaxandi mæli.

Aðrir fiskar, t.d. ýsa eða skrápflúra, snúa sér að botnlægum dýrum eins og burstaormum eða slöngustjörnum. Enn aðrir fiskar, eins og gullkarfi, litli karfi og ufsi halda sig að miklu leyti við dýrasvifið en velja þó stærri dýr til átu. Þrátt fyrir slík megineinkenni, er fæðan þó miklum breytingum háð með tilliti til árstíma, hafsvæðis og ýmissa umhverfisþátta. Fæðuvefur hafsins er því margslunginn og torráðinn.

Fram eftir síðustu öld höfðu fiskveiðar á Íslandsmiðum lítil áhrif með tilliti til svokallaðra fjölstofnatengsla, þ.e. veiðarnar beindust einkum að fiskum, aðallega þorski, sem voru ekki étnir af öðrum fiskum (að síldveiðum undanskildum).

Á seinni hluta síðustu aldar varð mikil breyting í þessu efni, einkum þegar stórfelldar loðnuveiðar hófust upp úr 1960 og einnig með stórtækum úthafsrækjuveiðum eftir 1985. Með þessum veiðum var byrjað að veiða æti annarra nytjafiska með ófyrirséðum afleiðingum fyrir þá stofna.

Fjölstofnatengsl af ýmsu tagi hafa því verið vaxandi rannsóknarefni síðustu áratugi. Í ljós hafa komið skýr tengsl milli stærðar loðnustofnsins og vaxarhraða þorsks. Stærð loðnustofnsins ræður því miklu um afrakstur þorskstofnsins.

Einnig hefur komið í ljós að þorskstofninn hefur mikil áhrif á nýliðun og afrakstur rækjustofna, enda étur þorskur mikið af rækju. Lífslíkur rækju eru því háðar stærð þorskstofnsins en þorskurinn er ekki svo háður rækju sem æti að það hafi greinanleg áhrif á vaxtarhraða hans. Slík tengsl lýsa aðeins broti af þeim flóknu fæðutengslum sem ríkja meðal sjávardýra, en sýna samt greinilega að nauðsynlegt er að taka tillit til þeirra við fiskveiðiráðgjöf.
» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is