Hafrannsóknastofnun

  
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Almennt um rannsóknir
Nytjastofnar
Kortlagning hafsbotnsins
Sjórannsóknir
Fæðuhættir og fjölstofnatengsl
Fiskmerkingar
Eldi
Hvalir
  Hrefnurannsóknir
  Átak 1986-1989
  Ferðir merktra hvala
  Hvalagagnagrunnur
Áhrif veiðarfæra á hafsbotn
Vöktun eiturþörunga
Dýrasvif
Firðir og grunnsævi
HELSTU NYTJASTOFNAR:
STEINBÍTUR
Hvalir
Skipulegar hvalarannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar hófust árið 1979 með ráðningu sérfræðings á þessu sviði, en þá höfðu breskir sérfræðingar stundað rannsóknir á hvölum hér við land í um áratug í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina.

Rannsóknir stofnunarinnar hafa lengst af einkum beinst að þeim tegundum sem nytjaðar voru fram að banni Alþjóðahvalveiðiráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni, sem tók gildi hér við land árið 1986, þ.e. langreyði, sandreyði og hrefnu.

Á árunum 1986-1989 var gert mikið átak í hvalarannsóknum hér við land með það meginmarkmið að efla grundvöll veiðiráðgjafar áður en hvalveiðibannið kæmi til endurskoðunar.

Eftir að ofangreindu rannsóknaátaki lauk upp úr 1990 hafa helstu verkefni stofnunarinnar á sviði hvalarannsókna verið á eftirfarandi rannsóknarsviðum:

 • Hvalatalningar eru langviðamestu einstöku verkefnin á sviði hvalarannsókna. Til að fylgjast með viðgangi hvalastofna er talið hæfilegt að telja á 5-6 ára fresti. Árin 1995 og 2001 fóru fram hvalatalningar á Norður Atlantshafi, sambærilegar við talningarnar 1987 og 1989.

 • Rannsóknir á stofngerð og atferli með ljósmyndun (greiningu einstaklinga) og húðsýnatöku. Á Hafrannsóknastofnun hefur þessari tækni verið beitt við rannsóknir á háhyrningum síðan 1981 og hnúfubak og steypireyði síðan 1990.

 • Rannsóknir á hnísu og hnýðing sem drepast í veiðarfærum. Hér er um að ræða grunnrannsóknir á ýmsum sviðum líffræði þessara smáhvala, s.s. fæðuvistfræði, æxlunarlíffræði, aldurssamsetningu, erfðafræði og orkubúskap.

 • Hvalrekar. Skráning og sýnataka úr hvölum sem reka á land dauðir eða lifandi. Þar sem veiðar hafa einungis verið stundaðar á litlum hluta hvalategunda hér við land er hér oft um að ræða eina tækifærið til líffræðirannsókna á viðkomandi tegundum.

 • Fæðuvistfræði og fjölstofnarannsóknir. Þótt upplýsingar séu af skornum skammti um fæðuvistfræði flestra þeirra 12 tegunda hvala sem halda reglulega til á íslensku hafsvæði, má út frá upplýsingum um lífþyngd og viðverutíma gera sér nokkra grein fyrir heildarafráni hvala á Íslandsmiðum og hugsanleg áhrif þeirra á viðgang annarra nytjastofna.

 • Ferðir reyðarhvala út frá merkingum með gervitunglasendum. Á síðustu árum hafa verið gerðar tilraunir til að fylgjast með ferðum hrefnu, langreyðar og steypireyðar með notkun gervitunglasenda.


 • Árstíðabreytingar í útbreiðslu hvalategunda á grunnsævi. Árið 1999 tókst samstarf við nokkur hvalaskoðunarfyrirtæki um skráningu upplýsinga um hvali sem sjást í ferðum fyrirtækjanna.

  Stofnerfðafræði langreyðar í Norður-Atlantshafi. Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkti á fundi sínum 2004 að hefja svokallaða pre-implementation vegna veiðikvótaútreikninga fyrir langreyðar við ísland á næsta fundi sínum sem þá tæki fyrir stofngerð. Greind verða örtungl (e. microsatellite) í fjölda sýna sem til eru bæði hér og frá nærliggjandi löndum og settar fram tilgátur um stofnmörk og blöndun við nærliggjandi stofna.

  Í ágúst 2003 hófust viðamiklar rannsóknir á hrefnu hér við land. Rannsóknir þessar eru liður í víðtækari áætlun um hvalrannsóknir sem lögð var fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins í júní 2003. Þar var gert ráð fyrir árlegum veiðum á 100 langreyðum, 100 hrefnum og 50 sandreyðum í tvö ár. Ákveðið var að hrinda hrefnuhluta áætlunarinnar í ágúst. Auk þess hófust hvalatalningar úr lofti í september 2003.

  Árlegar skýrslur um hvalarannsóknir við Ísland eru lagðar fram bæði í vísindanefnd IWC og NAMMCO. Allar ársskýrslur aðildarþjóða NAMMCO eru birtar í ársskýrslu vísindanefndarinnar sem eru aðgengilegar á vefsvæði hennar.

  » prenta

   

  Leit
  Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is