Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Fréttir
Svæðalokanir
Útgáfa
Sjávardýraorðabók
Ítarefni
Fjaran og hafið
Krækjur
Staða landana
Málstofa
Ársskýrslur
Ráðstefnur
Sjávarföll
Um skráningu meðafla
HELSTU NYTJASTOFNAR:
STÓRKJAFTA
Fréttir

28. okt. 2003
Neðansjávarmerkingar á karfa

Nýlokið er leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar með neðansjávar merkingarbúnað fyrir karfa. Tilgangur verkefnisins var að merkja karfa með það í huga að varpa ljósi á óvissu þá sem verið hefur um tengsl karfastofna á Íslandsmiðum og nálægum hafsvæðum á Reykjaneshrygg.
Karfi er ein þeirra tegunda sem ekki hefur verið unnt að merkja með hefðbundum fiskimerkjum þar sem ekki hefur, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, tekist að halda honum á lífi eftir að hann er dreginn upp undir yfirborð sjávar. Allar tilraunir til merkinga á karfa hafa hingað til miðast að því að merkja ofansjávar og hafa þær allar mistekist.

Hafrannsóknastofnunin hefur á undanförunum árum unnið í nánu samstarfi við fyrirtækið Stjörnu-Odda um þróun og byggingu búnaðar sem gerir mönnum kleift að merkja karfa neðansjávar. Búnaðurinn hefur verið prófaður á undanförnum árum í fjölda leiðangra á skipum Hafrannsóknastofnunarinnar og endurbætur og lagfæringar gerðar í ljósi þeirra niðurstaðna.

Nú er búnaðurinn tilbúinn til merkinga á karfa og í leiðangrinum í síðustu viku var djúpkarfi merktur í Skerjadýpi. Alls voru merktir nær 200 karfar á rúmlega 500 metra dýpi og er þetta í fyrsta skipti í heiminum, svo vitað sé að fiskur sé merktur þetta djúpt. Raunar má segja að þetta sé í fyrsta skipti í heiminum sem karfi er merktur, ef undan eru skildar merkingar við bryggjusporða, nálægt yfirborði. Því er hér um mjög mikilvægan áfanga að ræða í rannsóknum á karfastofnum.
Merkingarfyrirkomulagið er með þeim hætti að búnaðinum er komið fyrir í aftasta hluta veiðarfærisins (botn- eða flotvarpa) og fiskur sem veiðist fer aftur í búnaðinn þar sem hann er merktur. Merkjunum er komið fyrir í kviðarholi fisksins og gul slanga stendur út úr kviðarholinu, yfirleitt í námunda við eyrugga fisksins. Merkin sem eru um 2,5 sentimetra langur plasthólkur sem er inni í kviðarholi fiskins. Þar út úr er gul slanga sem stendur allt að 7 sentimetra út úr fiskinum. Að lokinni merkingu er fisknum sleppt afur úr veiðarfærinu sem notað er. Til að fylgjast með og stýra merkingunni eru 4 myndavélar á búnaðinum og er búnaðinum sem merkir fiskinn stýrt í gegnum tölvu sem staðsett er um borð í skipinu.
Hafrannsóknastofnunin hvetur sjómenn til að fylgjast vel með því hvort merktur djúpkarfi veiðist. Gerist það er mjög mikilvægt að merkinu, ásamt fiskinum sem merkið fannst í, auk upplýsinga um veiðistað og dýpi sé skilað sem fyrst til Hafrannsóknastofnunarinnar.
Leiðangurinn var farinn á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Þorsteinn Sigurðsson, leiðangursstjóri, svarar frekari fyrirspurnum varðandi niðurstöðurnar (sími 586-1708 eða 822-1709) og svarar Sigmar Guðbjörnsson framkvæmdastóri Stjörnu-Odda (sími 533-6060) spurningum um tæknina á bak við merkinguna.


Merki sem notuð eru við neðansjávarmerkingar á karfa, skalinn á myndinni er í sentímetrum.
Merkingarbúnaðurinn um borð í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Á myndinni eru frá vinstri: Þorsteinn Sigurðsson leiðangurssjóri, Sigmar Guðbjörnsson, Leifur Gústafsson og Atli Sigurðsson, allir frá Stjörnu-Odda.

» til baka

» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is