Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Fréttir
Svæðalokanir
Útgáfa
Sjávardýraorðabók
Ítarefni
Fjaran og hafið
Krækjur
Staða landana
Málstofa
Ársskýrslur
Ráðstefnur
Sjávarföll
Um skráningu meðafla
HELSTU NYTJASTOFNAR:
DJÚPKARFI
Fréttir

24. ág. 2012
Niðurstöður makrílleiðangurs þriggja þjóða staðfesta áframhaldandi mikla makrílgengd við Ísland

Nú í vikulokin lýkur í Bergen fundi fiskifræðinga frá Færeyjum, Íslandi og Noregi, þar sem farið var sameiginlega yfir niðurstöður leiðangurs þessara þjóða fyrr í sumar. Rannsóknirnar voru um borð í fjórum skipum frá Íslandi, Færeyjum og Noregi á tímabilinu 1. júlí til 10. ágúst 2012, en lítillega var greint frá niðurstöðum íslenska hlutans fyrr í mánuðnum á vef Hafrannsóknastofnunarinnar. Markmið leiðangursins var að kortleggja útbreiðslu og magn makríls og annarra uppsjávarfiskistofna í Norðaustur Atlantshafi meðan á ætisgöngum þeirra um norðurhöf stendur ásamt því að kanna ástand sjávar og átustofna á svæðinu. Rs Árni Friðriksson var í ár að taka þátt í þessum leiðangri í fjórða sinn og þetta árið var í fyrsta sinn sem öll skipin fjögur notuðu samskonar flotvörpu sem sérstaklega hefur verið þróuð fyrir þennan leiðangur.

Magn makríls á svæðinu var metið með upplýsingum um afla í togum sem tekin voru með reglulegu millibili (Mynd 1) Í heild mældust um 5,1 milljónir tonna af makríl á rannsóknarsvæðinu, og þar af 1,5 milljón tonn innan íslenskrar efnahagslögsögu eða um 29% af heildarmagninu á rannsóknasvæðinu (Tafla 1) og (Mynd 2). Í leiðangri sömu þjóða sumarið 2011 var heildarmagnið 2,7 milljónir tonna en 4,8 milljónir tonna árið 2010. Rannsóknarsvæðið í ár náði yfir 1530 þúsund ferkílómetra, samanborið við 1060 árið 2011 og 1750 þúsund ferkílómetra árið 2010. Er breytileg stærð rannsóknasvæðisins að hluta talin skýra muninn á heildarmagninu milli ára.
Þó svo að niðurstöður þessar séu ekki enn þá lagðar til grundvallar á mati á heildarstofnstærð makríls innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), staðfesta þær líkt og leiðangrar fyrri ára, víðáttumikla útbreiðslu makrílsins. Þá sýna þær að elsti makríllinn ferðast lengst í sínum ætisgöngum í Norðaustur Atlantshafi á sumrin, en hann var einkum að finna vestast og nyrst á rannsóknasvæðinu.
Skörun á útbreiðslu makríls og síldar var einkum vestan til í Austurdjúpi og austur af Íslandi (Mynd 1). Á austanverðu hafsvæðinu var lítið af síld. Bergmálsvísitala norsk-íslenskrar síldar mældist 7,2 milljónir tonna og niðurstöður leiðangursins síðustu fjögur ár sýna því svipaða neikvæða þróun stofnstærðar og mat Alþjóðahafrannsóknarráðsins.
Mesti þéttleiki rauðátu (helsta fæða markílsins) var vestan við Ísland þar sem makríllinn var jafnframt í mestum þéttleika. Á öðrum svæðum var þéttleiki átu yfirleitt lítill, líkt og undanfarin ár.
Yfirborðshiti sjávar í Norðaustur Atlantshafi var að öllu jöfnu yfir langtíma meðaltali. Það átti einkum við um svæðið suðvestur og vestur af Íslandi meðan að yfirborðshitinn í suðvestanverðu Austurdjúpi norður af Færeyjum var lítið eitt lægri en undanfarin ár. Frekari úrvinnsla á gögnum sem safnað var í leiðangrinum fer fram á næstu mánuðum.

Meðfylgjandi er skýrslusamantekt á ensku

Sjá skýrsluna í heild


sjá frétt á ensku:

http://www.hafro.is/undir_eng.php?ID=19&nanar=1REF=3&fID=14447

» til baka

» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is