Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Fréttir
Svæðalokanir
Útgáfa
Sjávardýraorðabók
Ítarefni
Fjaran og hafið
Krækjur
Staða landana
Málstofa
Ársskýrslur
Ráðstefnur
Sjávarföll
Um skráningu meðafla
HELSTU NYTJASTOFNAR:
KEILA
Fréttir

15. okt. 2003
Upplýsingar um hrefnuveiðar í rannsóknaskyni 2003


Eins og kunnugt er gaf sjávarútvegsráðherra út leyfi til veiða á allt að 38 hrefnum í rannsóknaskyni á tímabilinu 15. ágúst til loka september í samræmi við rannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar. Samkvæmt samningi milli Hafrannsóknastofnunarinnar og Félags Hrefnuveiðimanna voru gerðir út þrír bátar til sýnatökunnar, og voru tveir til þrír menn á vegum stofnunarinnar um borð í hverjum bát.

Alls veiddust 36 hrefnur á tímabilinu 18. ágúst til 30. september, 23 tarfar og 13 kýr. Lengdardreifing dýranna er sýnd á 1. mynd aðgreint eftir kyni. Athyglisvert er að munurinn á fjölda veiddra tarfa og kúa liggur fyrst og fremst í litlum (ungum) hrefnum. Þannig er kynjahlutfallið svipað (10 kýr/12 tarfar) ef litið er eingöngu til dýra yfir 7.5m, og einungis veiddist ein kú undir 7m.

Svæðadreifing veiðanna er sýnd á 2. mynd. Við fyrstu skoðun er einkum tvennt athyglisvert í því sambandi.

1. Samheldni dýra af sama kyni. Mest er þetta áberandi á svæði 1 (Faxaflói-Breiðafjörður) þar sem kynjahlutfallið var 10 tarfar/1 kýr, en einnig virðist vera aðskilnaður eftir kyni á öðrum svæðum. Úrtakið er þó mjög smátt og frekari rannsókna þörf til að skera úr um hvort hér sé um reglubundið haustmynstur að ræða.

2. Dreifing veiðanna er fremur strandlæg miðað við útbreiðslumynstur hrefnu eins og það er þekkt um mitt sumar. Á því geta verið a.m.k. tvær hugsanlegar skýringar

a) Veiðarnar fóru fram utan hefðbundins veiðitíma, en veðráttan að haustlagi torveldar mjög hrefnuveiðarnar sem fara fram á litlum bátum. Aðstæður til veiða eru að jafnaði betri nálægt landi en úti á rúmsjó (ef vindur stendur af landi) og má því ætla að meiri líkur séu á veiði við strendurnar.

b) Einnig er hugsanlegt að dreifing veiðinnar endurspegli í grófum dráttum útbreiðslumynstur hrefnu á þeim tíma sem veiðarnar fóru fram. Eftir því sem veður leyfði var leitað á svæðum fjarri landi, auk þess sem samdar voru sérstakar viðmiðunarreglur til að dreifa veiðinni innan undirsvæðanna. Auk þess var haft reglulega samband við fiskiskip á nálægum svæðum til að afla upplýsinga um hrefnugengd. Þótt hér hafi ekki verið um ítarlega könnun að ræða bentu þessar athuganir til að hrefnan héldi sig að langmestu leyti nálægt ströndinni á tímabilinu. Þessu til stuðnings eru flugtalningar sem framkvæmdar voru í september, einkum á Faxaflóasvæðinu. Samkvæmt þeim virtist útbreiðslan að mestu bundin við strandsvæðin. Þá er þess að geta að þrátt fyrir talsverða leit náðist því ekki að veiða nema eina af þeim þrem hrefnum sem gert hafði verið ráð fyrir á svæði 3 (djúpt undan Norðurlandi).

Á næstu mánuðum mun fara fram úrvinnsla sýna og annarra gagna sem safnað var í sumar og haust vegna verkefnisins. Reiknað er með að fyrstu niðurstöður rannsóknanna verði birtar vorið 2004 og áfangaskýrslur verkefnisins ræddar á ársfundi Vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins sumarið 2004.

» til baka

» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is