Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Fréttir
Svæðalokanir
Útgáfa
Sjávardýraorðabók
Ítarefni
Fjaran og hafið
Krækjur
Staða landana
Málstofa
Ársskýrslur
Ráðstefnur
Sjávarföll
Um skráningu meðafla
HELSTU NYTJASTOFNAR:
SKRÁPFLÚRA
Fréttir

8. feb. 2013
Mælingu á magni dauðrar síldar í Kolgrafafirði lokið

Eins og kunnugt er drápust um 30 þúsund tonn af síld í Kolgrafafirði í desember 2012 og fóru sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar ítrekað til rannsókna á svæðinu í desember og janúar s.l. Þann 1. febrúar s.l. uppgötvaðist aftur mikið af nýdauðri síld í Kolgrafafirði. Hópur sérfræðinga frá Hafrannsóknastofnun fór til athugana í firðinum mánudaginn 4. febrúar þar sem markmið rannsóknanna var að kanna umhverfisaðstæður, að leggja mat á magn þeirrar síldar sem drapst og dreifingu hennar. Farið var með bátnum Bolla SH til mælinganna. Í rannsóknunum var ástand sjávarins kannað (hiti, selta, súrefni), auk þess sem botn fjarðarins var skoðaður með neðansjávarmyndavélum. Þá voru fjörur gengnar og mat lagt á magn dauðrar síldar þar. Nú er frumgreiningu þeirra gagna lokið.

Umhverfismælingar
Hiti og selta í firðinum var mjög svipuð því sem var í mælingum Hafrannsóknastofnunar um miðjan janúar. Stofnunin mældi einnig styrk súrefnis við yfirborð og botn. Súrefnismettun var á bilinu 47-63 %, mun lægri við botninn heldur en við yfirborðið. Ekkert sýni hafði eins lágan súrefnisstyrk og mældist í fyrstu mælingunni í desember, en þá var mælt 5 sólarhringum eftir síldardauðann þann 13. desember. Við túlkun niðurstaðna um styrk súrefnis þarf að hafa í huga að töluverður vindur hafði verið þá 3 sólarhringa sem liðu frá því að síldardauðinn varð og þar til mælingin var gerð. Súrefnisflæði frá lofti til sjávar er mjög háð vindstyrk og ef sjórinn er undirmettaður eykst styrkurinn í efstu metrunum hratt þegar vindur eykst. Af þeim sökum er líklegt að súrefnismettun sem mældist sl. mánudag hafi verið hærri en hún var föstudaginn 1. febrúar.

Magn dauðrar síldar
Svæðið innan brúar var kannað með neðansjávarmyndavél og myndir teknar á fjórum sniðum í firðinum. Tekið var snið frá botni fjarðarins og í átt að brúnni sem þverar fjörðinn. Dýpi á því svæði er á bilinu 10-42 metrar. Jafnframt var myndað á þremur sniðum vestast í firðinum á því svæði þar sem mest af dauðri síld var að finna í fjörum (Mynd). Einnig var metið magn síldar í fjöru með talningum á 11 sniðum, frá efri mörkum fjörunnar og að sjávarborði á hverjum stað. Það mat var gert síðdegis og fram á kvöld þann 5. febrúar, á þeim tíma þegar sem stærstur hluti fjörunnar var sýnilegur. Niðurstöðurnar sýna að nýdauða síld var einungis að finna vestast í firðinum en ekkert sást af nýdauðri síld annars staðar í firðinum innan brúar. Hafrannsóknastofnun hefur nú greint þau gögn sem safnað var og samkvæmt þeim er metið að um 22 þúsund tonn síldar hafi drepist í Kolgrafafirði þann 1. febrúar síðastliðinn. Það mat er þó háð mikilli óvissu vegna dreifingar síldarinnar. Því má telja líklegt að rúm 50 þúsund tonn af síld hafi drepist í firðinum frá því um miðjan desember. Aðeins var vart við óverulegt magn lifandi síldar í innanverðum Kolgrafafirði þann 4. febrúar, en athuganir undanfarinna vikna sýna að síldin hefur verið í mismiklu magni innan brúar frá því að athuganir hófust í kjölfar síldardauða í desember. Sú rotnun sem á sér stað og fyrirséð er að muni verða á næstu vikum getur viðhaldið lágum súrefnisstyrk í firðinum og því gæti áframhaldandi hætta verið til staðar á næstu vikum fari fiskur inn á svæðið í miklu magni. Hafrannsóknastofnun mun áfram fylgjast náið með síldinni og umhverfisaðstæðum í firðinum. Kolgrafarfjörður. Myndin sýnir hvar neðansjávarmyndatökur fóru fram (gular línur) og jafnframt útbreiðslu nýdauðrar síldar á sjávarbotni og í fjöru þann 4. febrúar.

» til baka

» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is