Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Almennt
Saga
Rannsóknasvið og deildir
Sjávarútvegsskóli Háskóla SÞ
Útibú og eldisstöð
Sjávarútvegsbókasafn
Fyrirspurnir og ábendingar
Rannsóknaskip
HELSTU NYTJASTOFNAR:
UFSI
Fréttir

26. ág. 2016
Kortlagning búsvæða á hafsbotni

Myndun hafsbotnsins er liður í því að safna gögnum um búsvæði hans við Ísland, þar sem lífríkið ásamt botngerð og fleiri þáttum eru skoðuð saman og flokkuð. Dagana 20. júní til 1. júlí var myndað með neðansjávarmyndavélum á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Í ár var lífríkið við Djúpálinn, Halann, NA af Horni, Kolbeinseyjarhrygg og kantinn suður af Selvogsbanka myndað (1. mynd, rauðir punktar).

Veðrið hafði mikil áhrif á val rannsóknasvæðanna þar sem tækin sem notuð eru við rannsókninar eru ákaflega viðkvæm fyrir sjólagi. Til stóð að rannsaka svæðið út af Vestfjörðum, en vegna veðurs var það ekki hægt. Fjölgeislakort af hafsbotninum eru forsenda þess að svæði séu rannsökuð á þennan hátt og þar sem búið er að fjölgeislamæla svæði bæði fyrir norðan og sunnan, var ákveðið að færa rannsókninar þangað því sjólag var þar heppilegra.

Alls voru tekin 73 snið, hvert þeirra var um 600 m langt, þannig að samanlagt voru sniðin um 43.8 km að lengd. Sniðin voru mjög ólík, frá 70 m niður á 850 m dýpi, allt frá dúnmjúkum leir yfir í harðann og grófann hraunbotn og tegundasamsetning ólík eftir því. Töluverð vinna er eftir við að greina þær tegundir sem myndaðar voru en fara þarf yfir allt myndefnið nákvæmlega, skrá botngerðir, telja og greina öll botndýr.

Í Djúpálnum var leirbotn og því eru flest botndýr ofan í setinu en þó var einkum að sjá leirblóm (Bolocera tuedia), sem er sæfífill, og rækjur ofan á botninum. Halamið eru einhver mest sótta veiðislóð við Ísland. Þar var því ekki búist við miklu botndýralífi, sem stóð heima. Neðan við veiðislóðina, í kantinum út af Halanum, var hins vegar að finna fjölmargar tegundir (2. og 3. mynd).

Á Kolbeinseyjarhrygg, sunnan Kolbeinseyjar, voru miklar og fjölskrúðugar svampabreiður (4. og 5. mynd). Mest áberandi voru svo kallaðir vasa- eða blaðlaga svampar, en augjóst er að mikið er af svampategundum á svæðinu. Í fyrsta sinn voru myndaðir kaldsjávarsvampar af ætt Cladorhizidae hér við land, meðal annars sást tegund af ættkvísl Cladorhiza og að líkindum tegundin Chondrocladia gigantea (6. mynd). Þessir svampar eru mjög áhugaverðir, einkum þar sem þeir eru rándýr, en ekki síarar eins og aðrir svampar. Utan við hrygginn eru rækjumið og þar er mjög fíngerður leir (7. mynd), skyggni var slæmt á botninum enda mikið grugg sem myndast nálægt veiðislóðinni. Hverasvæði austur af Grímsey var myndað, en skyggni var afleitt vegna gruggs.

Á kantinum út af Selvogsgrunni var lífríkið nokkuð fábreytt á köflum, á hörðum blettum voru svampar en á mjúkum svæðum voru humarholur, sæfjaðrir og sæfíflar (8. og 9. mynd).
Í djúpkantinum suður af Selvogsgrunni voru að líkindum móbergsflákar með sæliljum, sæfjöðrum, nornakrabba og stöku kóral (10. mynd).

Leiðangursstjóri var Steinunn H. Ólafsdóttir og skipstjóri var Guðmundur Sigurðsson

mynd með umfjöllunmynd með umfjöllunmynd með umfjöllunmynd með umfjöllunmynd með umfjöllunmynd með umfjöllunmynd með umfjöllunmynd með umfjöllunmynd með umfjöllunmynd með umfjöllun


» til baka

» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is