Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Almennt
Saga
Rannsóknasvið og deildir
Sjávarútvegsskóli Háskóla SÞ
Útibú og eldisstöð
Sjávarútvegsbókasafn
Fyrirspurnir og ábendingar
Rannsóknaskip
HELSTU NYTJASTOFNAR:
LOÐNA
Fréttir

4. jún. 2004
Samanburður loftmynda og flugtalninga í Faxaflóa

Í september 2003 fóru fram hvalatalningar í Faxaflóa sem hluti af átaki Hafrannsóknastofnunarinnar í hrefnurannsóknum. Talningin fór fram í flugvél af gerðinni Partenavia, sem er með bóluglugga á báðum hliðum. Flugvél á vegum Grænlensku náttúrustofnunarinnar tók einnig þátt í rannsókninni og voru í henni gerðar tilraunir með notkun á tækjum til stöðugrar stafrænnar myndatöku á haffletinum, en til stendur að nota vélina til að kanna þéttleika hrefnu við Grænland í sumar. Ástæðan fyrir tilraunum hér er nálægð flugvalla við mikinn þéttleika hrefnu í Faxaflóa og til að fá samanburð við flugtalningar á hrefnu, sem hvergi hafa verið stundaðar nema hér og gefist vel. Grænlenska vélin flaug hærra, þannig að talningavélin lenti inni á myndunum og fékkst þannig nákvæmur samanburður við það sem talningamenn skráðu.

Flognar voru leitarlínur í Faxaflóa sem notaðar hafa verið áður og um leið var talið á sama hátt og gert hefur verið.

Niðurstöður
Flognar voru 1884 sjómílur á talningavélinni og sáust 87 hrefnur, 133 höfrungar í 33 hópum, 30 grindhvalir í 3 hópum, 13 hnýsur í 9 hópum auk þriggja andanefja, tveggja háhyrninga, langreyðar og hnúfubaks. Töluvert náðist á myndir sem hafa nú verið nýttar til að meta nákvæmni í skráningum í flugtalningum okkar og til að meta notagildi loftmyndatöku við talningar á hrefnum og þá hversu þétt þarf að taka myndir til að hvalur sé örugglega vel greinanlegur.

Við góð skilyrði reyndist unnt að greina hrefnu á mynd að meðaltali í 6 og hálfa sekúndu í hvert skipti sem hún andar,
en reiknað er með að hrefnan andi 53 sinnum á klst. Þannig ætti að vera hægt að greina tæp 10% þeirra hrefna sem eru á því
svæði sem fellur innan myndarammans.

Í fullri upplausn er aðeins hægt að skoða hluta hverrar myndar á tölvuskjá í einu og er þá hver hrefna aðeins nokkrir punktar. Reynt verður að láta tölvu frumgreina myndirnar þannig að ekki þurfi að skoða nema lítinn hluta þeirra tugþúsunda mynda sem teknar eru.


Talningarnar í september voru hluti af víðtækum hvalatalningum. Hingað til hafa flugtalningar aðallega farið fram um mitt sumar þegar fjöldi hrefna er í hámarki, en í apríl fóru einnig fram talningar víða við landið til samanburðar.

Flogið verður víðar við landið í sumar og haust og verður þá unninn nánari samanburður úr þessum talningum. Ljóst er þó að þéttleiki hrefnu í Faxaflóa er eitthvað minni í september en um hásumar, en þó ekki svo að það kæmi að sök við tilraunirnar.

» til baka

» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is