Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Almennt
Saga
Rannsóknasvið og deildir
Sjávarútvegsskóli Háskóla SÞ
Útibú og eldisstöð
Sjávarútvegsbókasafn
Fyrirspurnir og ábendingar
Rannsóknaskip
HELSTU NYTJASTOFNAR:
BLÁLANGA
Fréttir

5. júl. 2004
Rannsóknaveiðum á hrefnu árið 2004 lokið

Hafrannsóknastofnunin hefur lokið veiðum á þeim 25 hrefnum sem ákveðið var að veiða árið 2004 í samræmi við áætlun um átak í hrefnurannsóknum. Alls hafa því verið tekin sýni úr 61 hrefnu og margvíslegar mælingar gerðar frá því rannsóknirnar hófust í ágúst 2003. Úrvinnsla gagna er hafin og verður greint frá gangi rannsóknanna á ársfundi vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins sem nú stendur yfir í Sorrento á Ítalíu.

Þrír bátar voru leigðir til veiðanna: Njörður KÓ, Halldór Sigurðsson ÍS og Trausti ÍS og voru veiðar stundaðar allt í kringum landið. Veiðunum var dreift í hlutfalli við útbreiðslu hrefnu hér við land að sumarlagi.

Að sögn Gísla A. Víkingssonar, verkefnisstjóra, gekk sýnasöfnun og önnur gagnaöflun vel, þótt óhagstætt tíðarfar hafi tafið veiðarnar á tímabili. Úrvinnsla gagna sem safnað var í sumar er þegar hafin. Samkvæmt rannsóknaráætlun Hafrannsóknastofnunarinnar verða alls veidd 200 dýr og munu endanlegar niðurstöður rannsóknanna í heild liggja fyrir að lokinni úrvinnslu allra sýna.

Meginmarkmið rannsóknanna er að afla grunnupplýsinga um fæðuvistfræði hrefnu á landgrunni Íslands en auk fæðurannsókna eru gerðar fjölþættar aðrar rannsóknir á hverri veiddri hrefnu, t.d. á sviði erfðafræði, heilsufræði, æxlunarlíffræði, orkubúskapar og lífeðlisfræði. Ásamt Hafrannsóknastofnuninni koma vísindamenn frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum, Landspítala Háskólasjúkrahúsi o.fl. aðilum að rannsóknunum.

Auk rannsókna á veiddum dýrum eru hvalatalningar úr flugvél mikilvægur hluti hrefnurannsóknanna í ár. Meginmarkmið þeirra rannsókna er að afla upplýsinga um fjölda og útbreiðslu hrefnu að vori, sumri og hausti. Slíkar talningar fóru fram í apríl og júní, og eru einnig fyrirhugaðar í september. Í talningunum í júní sást mikill fjöldi hnúfubaka norðan við land, en þær upplýsingar komu að verulegu gagni við loðnuleit.

Í ágúst og september verða gerðar tilraunir til að fylgjast með ferðum hrefna með aðstoð gervitunglasenda.

Nánari upplýsingar er að finna á upplýsingavef Hafrannsóknastofnunarinnar um hrefnurannsóknir - www.hafro.is/hrefna.

» til baka

» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is