Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Almennt
Saga
Rannsóknasvið og deildir
Sjávarútvegsskóli Háskóla SÞ
Útibú og eldisstöð
Sjávarútvegsbókasafn
Fyrirspurnir og ábendingar
Rannsóknaskip
HELSTU NYTJASTOFNAR:
UFSI
Saga
Hafrannsóknastofnun var komið á fót með lögum nr. 64 frá 31. maí 1965. Upphaf hafrannsókna við Ísland má þó rekja til síðari hluta 19. aldar er Danir hófu sjórannsóknir við landið.

Kerfisbundnar haf- og fiskirannsóknir Íslendinga hófust hins vegar með frumkvöðlastarfi Bjarna Sæmundssonar í upphafi 20. aldar. Árið 1931 hófust fiskirannsóknir á vegum Fiskifélags Íslands og veitti Árni Friðriksson þeirri starfsemi forstöðu. Árið 1937 urðu þáttaskil í íslenskum haf- og fiskirannsóknum með stofnun Fiskideildar Atvinnudeildar Háskólans og varð Árni Friðriksson fyrsti forstöðumaður Fiskideildar.

Eftir síðari heimsstyrjöldina var mikil gróska í íslenskum haf- og fiskirannsóknum er rannsóknasvið Fiskideildar jókst jafnt og þétt með tilkomu sérmenntaðs starfsfólks í hinum ýmsu greinum haf- og fiskifræði. Árið 1947 hófust kerfisbundnar sjó- og áturannsóknir og rannsóknir á plöntusvifi hófust 1958.

Upp úr 1970 voru gerðar víðtækar rannsóknir á áhrifum mismunandi möskvastærðar á aflasamsetningu og um 1975 hófust síðan kerfisbundnar rannsóknir á veiðarfærum og á jarðfræði hafsbotnsins.

Jafnan var fylgst með ástandi helstu nytjastofna og reynt að segja fyrir um sveiflur í afla. Lögð var áhersla á að meta áhrif veiða á þorskstofninn, enda voru það mikilvæg rök í allri umræðu um stækkun fiskveiðilögsögunnar á árunum 1952-1975. Að öðru leyti einkenndist starfsemin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og allt fram yfir miðjan áttunda áratuginn af þeirri miklu áherslu sem þá var lögð á fiskileit og leit að nýjum fiskimiðum. Átti þetta mjög mikinn þátt í ört vaxandi síldveiðum fram yfir miðjan sjöunda áratuginn svo og sinn þátt í þróun veiða á loðnu og ýmsum tegundum hryggleysingja upp úr 1970.

Sívaxandi skipastóll og örar tækniframfarir við veiðarnar olli því að flestir nytjastofnar urðu brátt fullnýttir og sumir ofveiddir. Á áttunda áratugnum urðu þáttaskil í íslenskum fiskirannsóknum. Árið 1975 birti Hafrannsóknastofnun og einnig starfshópur á vegum Rannsóknarráðs ríkisins skýrslur um bágt ástand fiskstofna á Íslandsmiðum sem leiddi til mikillar umræðu um stjórn fiskveiða og hagkvæma nýtingu fiskstofna. Til þess að renna styrkari stoðum undir ráðgjöf um nýtingu fiskimiðanna sneri Hafrannsóknastofnun sér nú í vaxandi mæli að rannsóknum sem höfðu að markmiði að meta stærð og afrakstursgetu nytjastofna.

Frá árinu 1978 hefur stofnunin árlega birt skýrslu um ástand nytjastofna og lagt fram tillögur um hámarksafla úr helstu nytjastofnum. Síðustu tvo áratugina hafa margvíslegar rannsóknir sem tengjast mati á stærð stofnanna verið einn megin þáttur starfseminnar.

Árið 1984 voru sett ný lög um starfsemi Hafrannsóknastofnunar þar sem kveðið er á um markmið starfseminnar og stjórnunarhætti (sjá nánar í kafla 1.2). Á þessum tímamótum lét Jón Jónsson af störfum sem forstöðumaður, en hann hafði þá gegnt því starfi í rúm 30 ár. Jakob Jakobsson tók við starfi forstjóra og gegndi hann því fram á mitt ár 1998 er Jóhann Sigurjónsson, núverandi forstjóri, tók við.

Árið 1984 varð ennfremur sú breyting á að deildum innan stofnunarinnar var fækkað og starfseminni var skipt í tvö megin rannsóknarsvið: Sjó- og vistfræðisvið og Nytjastofnasvið. Haustið 1998 var síðan sett á laggirnar sérstakt Veiðiráðgjafarsvið. Þá eru á stofnuninni þrjár stoðdeildir: Tæknideild, Reiknideild og Bókasafn.

Íslenskar haf- og fiskirannsóknir voru framan af stundaðar á leiguskipum sem fengin voru tímabundið til rannsóknarstarfa. Snemma árs 1966 var afráðin smíði á nýju rannsóknaskipi sem tekið var í notkun í september 1967 og hlaut nafnið rs. Árni Friðriksson. Árið 1970 kom rs. Bjarni Sæmundsson nýr til landsins og mb. Dröfn var keypt til stofnunarinnar árið 1973. Árin 1980-1983 var togarinn Hafþór í eigu stofnunarinnar, en notkun hans varð minni en ætlað var vegna takmarkaðra fjárveitinga. Í árslok 1984 eignaðist stofnunin, mb. Ottó Wathne, sem nú heitir rs. Dröfn, og kom skipið í stað gömlu Drafnar.

Á árunum 1986-1991 rak stofnunin rannsóknabátinn mb. Mími í samvinnu við Fiskifélag Íslands og Háskóla Íslands. Mímir fórst árið 1991. Í kjölfarið festi stofnunin kaup á tveimur rannsóknabátum, mb. Einar í Nesi sem staðsettur er á Akureyri og mb. Friðrik Jesson sem er í Vestmannaeyjum. Nú á stofnunin einungis mb. Einar í Nesi.

Árið 1998 var hafin smíði á nýju og fullkomnu rannsóknaskipi sem hlaut nafnið rs. Árni Friðriksson, þar sem ákveðið var að það kæmi í stað gamla Árna Friðrikssonar. Hið nýja og glæsilega skip kom til landsins í maí árið 2000.

Á árinu 1998 tók til starfa Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna en hann er formlegt samstarfsverkefni Matís, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands undir forystu Hafrannsóknastofnunar. Rekstur skólans er að stærstum hluta greiddur af utanríkisráðuneytinu og renna um 8% af heildarframlagi Íslands til þróunaraðstoðar til skólans. Nám við skólann sækir fagfólk frá ýmsum sviðum sjávarútvegs í þróunarlöndunum.

Hafrannsóknastofnun rekur nú útibú á 5 stöðum á landinu. Fyrsta útibúinu var komið á laggirnar á Húsavík árið 1974. Síðan hafa bæst við útibú á Höfn, Ísafirði, í Ólafsvík og loks í Vestmannaeyjum. Útibúið á Húsavík var flutt til Akureyrar árið 1991 og er starfsemin þar nú rekin í nánum tengslum við sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri.

Útibúin gegna þýðingarmiklu hlutverki við gagnasöfnun og til þess að afla almennra upplýsinga um gang veiða í hinum ýmsu landshlutum og auka tengsl stofnunarinnar við sjávarútveginn.
» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is