Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Almennt um rannsóknir
Nytjastofnar
Kortlagning hafsbotnsins
Sjórannsóknir
Fæðuhættir og fjölstofnatengsl
Fiskmerkingar
Eldi
Hvalir
  Hrefnurannsóknir
  Átak 1986-1989
  Ferðir merktra hvala
  Hvalagagnagrunnur
Áhrif veiðarfæra á hafsbotn
Vöktun eiturþörunga
Dýrasvif
Firðir og grunnsævi
HELSTU NYTJASTOFNAR:
LÚÐA
Hrefnurannsóknir

Vorið 2003 kynnti Hafrannsóknastofnunin tveggja ára áætlun um veiðar þriggja hvalategunda í rannsóknaskyni. Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að rannsóknaveiðarnar stæðu í tvö ár og að veiddar yrðu 100 hrefnur hvort ár, auk þess sem gert var ráð fyrir veiðum á 100 langreyðum og 50 sandreyðum hvort ár. Nú hefur verið ákveðið að árið 2003 verði einungis veiddar 38 hrefnur og að veiðarnar standi yfir frá 15. ágúst til loka september (sjá: fréttatilkynningu frá Sjávarútvegsráðuneyti). Gert er ráð fyrir að rannsóknunum verði fram haldið á næsta ári í samræmi við fyrri áætlanir.

Sagan Hrefnuveiðar voru stundaðar á litlum vélbátum hér við land mestan hluta síðustu aldar. Lengst af voru þessar veiðar mjög takmarkaðar eða nokkrir tugir dýra á ári. Á árunum 1977-1985 veiddu Íslendingar árlega um 200 hrefnur. Hrefnuveiðar hafa ekki verið stundaðar við Ísland frá því að bann Alþjóðahvalveiðiráðsins tók gildi árið 1986. Hrefna var því ekki veidd í tengslum við víðtækar rannsóknir sem fram fóru á árunum 1986-1989 á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar.

Á árunum 1977-1980 voru gerðar fyrstu grunnrannsóknir á líffræði hrefnu hér við land sem beindust beindust einkum að aldri, vexti og viðkomu tegundarinnar. Einnig voru stundaðar rannsóknir á veiðigögnum til að varpa ljósi á ýmsa stofnþætti svo sem kynja og stærðarhlutföll eftir svæðum, afla á sóknareiningu, o.fl. Þá hafa verið stundaðar rannsóknir á stofnerfðafræði hrefnunnar með samanburði á sýnum úr veiðinni við Ísland og frá öðrum svæðum á Norður Atlantshafi. Rannsóknir á fæðuvistfræði hrefnunnar hér við land hafa verið mjög takmarkaðar og byggir fyrirliggjandi vitneskja á þessu sviði á athugunum á einungis 68 mögum sem safnað var úr veiðum og með öðrum hætti (hvalrekar) á yfir 20 ára tímabili, þ.e. á árunum1977-1997.

Eftir að veiðum var hætt árið 1985 hafa rannsóknir á hrefnu hér við land einkum beinst að mati á stofnstærð með reglulegum talningum (sjá síðar) auk tilrauna til að kanna ferðir hrefnu hér við land með gervitunglasendum. Þá hefur eftir megni verið reynt að safna sýnum úr hrefnum sem rekið hafa á land eða flækst í veiðarfærum skipa og báta.

Stofnstærð hrefnu Frá árinu 1987 hefur Hafrannsóknastofnunin haft forgöngu um víðtækar hvalatalningar í samvinnu við nágrannaþjóðir við Norður Atlantshaf. Upphaf þessara talninga má rekja til rannsóknaátaks stofnunarinnar á árunum 1986-1989, og hafa til þessa dags verið gerðar fjórar talningar (1987, 1989, 1995 og 2001). Rannsóknir þessar eru líklega viðamestu talningar á spendýrum sem um getur í heiminum. Á íslenska talningasvæðinu miðaðist skipulag talninganna við að fá sem öruggast mat á fjölda hrefnu og langreyðar við landið, fyrir utan talningarnar 1989 sem beindust sérstaklega að sandreyði.
Samkvæmt talningum sem fram fóru árið 2001 eru um 67 þús. hrefnur á Mið-Atlantshafssvæðinu, þar af um 43 þús. á íslenska landgrunninu. Vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) samþykkti þetta stofnmat á fundi sínum fyrr á þessu ári.

Samkvæmt síðustu úttekt vísindanefndar Norður Atlantshafs Sjávarspendýraráðsins (NAMMCO) frá 1997 hafa veiðar undanfarna áratugi ekki haft nein teljandi áhrif á stofninn, og er það í samræmi við síðustu úttekt IWC á stofninum sem fram fór árið 1990.

Hrefna í fjölstofnasamhengi Talninganiðurstöður sýna óyggjandi að hrefna og aðrir hvalir skipa ríkan sess í vistkerfi hafsins umhverfis Ísland. Til að meta nánar hlutverk hinna ýmsu hvalategunda í vistkerfinu er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fæðusamsetningu. Þekking á því sviði hér við land er hins vegar almennt mjög takmörkuð þótt það sé nokkuð mismunandi eftir tegundum. Árið 1997 voru birtir útreikningar á afráni þeirra 12 hvalategunda sem finnast reglulega hér við land út frá bestu fánlegu upplýsingum um stofnstærðir, fæðusamsetningu, viðverutíma og orkuþörf (1. mynd). Samkvæmt þeim éta hvalir við Ísland rúmlega 6 milljónir tonna af sjávarfangi árlega, þar af tæplega 3 milljónir tonna af krabbadýrum, rúmlega 1 millj. tonn af smokkfisktegundum og rúmlega 2 millj. tonna af fiskmeti.

Hrefnan er atkvæðamesti afræninginn bæði hvað varðar heildarmagn (2 millj. tonna) og fiskát (1 millj. tonn), en þó er sú niðurstaða óvissu háð þar eð fyrirliggjandi þekking um fæðuval hrefnu hér við land er mjög af skornum skammti. Samkvæmt þessum takmörkuðu gögnum er ljósáta um 35% fæðunnar, loðna 23%, síli 33% og þorskfiskar um 6%. Þorskur var meðal fæðutegundanna en ekki var unnt að meta hlutdeild tegundarinnar innan fæðuflokksins þorskfiska en hvert prósent skiptir miklu máli þegar um er að ræða heildarneyslu upp á tvær milljónir tonna. Ef gert er ráð fyrir að þorskur sé 3% af fæðu hrefnu benda útreikningar með fjölstofnalíkani til að breytingar á stærð hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu þorskstofnsins hér við land til lengri tíma litið. Stærsti óvissuþáttur þessara útreikninga varðar fæðusamsetningu hrefnu og er því sérlega mikilvægt að afla frekari gagna á því sviði hér við land.

Markmið rannsóknanna Meginmarkmið rannsóknanna sem nú hefur verið ákveðið að ráðast í er að afla grunnvitneskju um fæðuvistfræði hrefnu hér við land. Auk rannsókna á fæðusamsetningu með greiningu magainnihalds verður aflað annarra gagna sem nauðsynleg eru til að meta afrán tegundarinnar á hinum ýmsu fæðutegundum. Þar má nefna rannsóknir á orkubúskap, árstíðabundnum breytingum í fjölda og útbreiðslu, og fæðuþörf. Þá verður unnið að þróun fjölstofnalíkans stofnunarinnar sem þegar tekur til þorsks, loðnu og rækju svo meta megi vistfræðilegt samspil hrefnu og þessara tegunda.

Auk þessa meginmarkmiðs hefur rannsóknin eftirfarandi markmið:

  • Að kanna stofngerð hrefnu í Norður Atlantshafi með erfðafræðilegum aðferðum og gervitunglamerkingum.
  • Að kanna sníkjudýr og sjúkdóma í hrefnustofninum.
  • Að safna upplýsingum um aldur og viðkomu hrefnu hér við land.
  • Að kanna magn lífrænna og ólífrænna mengunarefna í hinum ýmsu líffærum.

Þá verður metin gagnsemi ýmissa nýrra rannsókaaðferða með samanburði við hinar hefðbundnari aðferðir.

Framkvæmd Veiðunum verður dreift á 9 svæði (2. mynd) umhverfis landið í hlutfalli við mergð hrefnu á svæðunum samkvæmt talningum undanfarinna ára. Dreifing veiðanna í tíma og rúmi er sýnd í töflu 1.

Veiðarnar fara fram á þrem skipum sem leigð verða til verkefnisins. Leiðangursstjóri frá Hafrannsóknastofnuninni mun stýra framkvæmd veiða og sýnatöku samkvæmt rannsóknaáætlun. Til veiðanna verður beitt nýlegum sprengjuskutli (penthrite) sem tryggja á skjóta aflífun dýra.

Hafrannsóknastofnunin mun tryggja að farið verður með veidd dýr samkvæmt reglum þar um, m.a. að afurðir verði nýttar til fullnustu eins og fyrir er mælt í reglum alþjóðahvalveiðiráðsins. Allur hagnaður af sölu afurða mun renna til rannsóknastarfsins. Áætlað er að heildarkostnaður verkefnisins árið 2003 verði um 35 milljónir króna, þar af rúmlega helmingur vegna veiðanna og sýnatöku.

Að rannsóknunum munu vinna fjöldi vísindamanna auk starfsmanna Hafrannsóknastofnunarinnar, verkefnisstjóri er Gísli A. Víkingsson.

Hafrannsóknastofnuninni, 6. ágúst 2003


Tafla 1. Dreifing hrefnuveiða eftir mánuðum og svæðum.
Svæði
ágúst
september/
október
Alls
1
5
5
10
2
2
2
4
3
2
1
3
4
2
1
3
5
1
1
2
6
2
2
4
8
1
1
2
9
3
3
6
10
2
2
4
Alls 2003
20
18
38

1. Mynd. Gróft mat á afráni hvala á Íslandsmiðum

2. mynd. Svæðaskipting hrefnuveiðanna innan landgrunns Íslands.

» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is