Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Almennt um rannsóknir
Nytjastofnar
Kortlagning hafsbotnsins
Sjórannsóknir
Fæðuhættir og fjölstofnatengsl
Fiskmerkingar
Eldi
Hvalir
  Hrefnurannsóknir
  Átak 1986-1989
  Ferðir merktra hvala
  Hvalagagnagrunnur
Áhrif veiðarfæra á hafsbotn
Vöktun eiturþörunga
Dýrasvif
Firðir og grunnsævi
HELSTU NYTJASTOFNAR:
LANGLÚRA
Ferðir merktra hvala
Vetur 2014-2015


Haustið 2014 var fram haldið rannsóknum Hafrannsóknastofnunar á árstíðabundinni útbreiðslu og fari skíðishvala við Ísland.

Rannsóknir þessar byggjast á merkingum með gervitunglasendum og hafa nú þegar varpað nýju ljósi á ýmsa þætti er tengjast viðveru og fartíma hvala við landið. Þá hafa rannsóknirnar veitt fyrstu vísbendingar um far og vetraraðsetur hrefnu í Norður Atlantshafi.

Á tímabilinu 10. – 15. nóvember 2014 voru fimm hnúfubakar merktir með gervitunglasendum í Eyjafirði. Nothæfar upplýsingar hafa fengist um staðsetningu fjögurra þessara dýra.

Hnúfubakarnir voru allir merktir í grennd við Hrísey, en þar var mikið um hval í nóvember, mest hnúfubakar en einnig hrefnur og hnísur. Þann 15. nóvember voru a.m.k. 25 hnúfubakar á svæðinu.

Fyrsti hnúfubakurinn var merktur þann 10. nóvember nokkru sunnan við Hrísey. Dýrið hélt sig í Eyjafirðinum fyrstu tvær vikurnar, en synti þá norður til Grímseyjar. Á tímabilinu 29. Nóvember - 19. desember var hvalurinn staðbundinn grunnt norður af Gjögraskaga/Flateyjarskaga, en synti þá til austurs og síðan norðurs.

Á tímabilinu 22. desember - 8. janúar hélt hnúfubakurinn sig um 50 sjómílur frá landi, mest á og utan við Þistilfjarðargrunn og Sléttugrunn. Þann 10. janúar hélt hvalurinn ákveðið í vesturátt og var við Kolbeinsey um kvöldið og var úti fyrir Ísafjarðardjúpi rúmum sólarhring síðar. Þessu næst hélt dýrið út á rúmsjó og synti til suðvesturs vestan við Reykjaneshrygg.

Þann 19. Janúar var hnúfubakurinn staddur um 550 sjómílum (sml) suðvestur af Reykjanesi. Hreyfingar dýrsins undanfarna 10 daga og mikill ferðahraði (5 sml/kls) benda til að um sé að ræða síðbúið ,,haustfar“.

Í Norður Atlantshafi eru tvær þekktar vetrarstöðvar hnúfubaks þar sem æxlun fer fram, í Karíbahafi og við Grænhöfðaeyjar, en ekki hefur enn tekist að skrásetja haustfar hnúfubaka í Norður Atlantshafi með gervitunglasendum. Hægt er að fylgjast áfram með ferðum þessa hvals hér á síðunni .

Annar hnúfubakur sem var merktur við Hrísey 11. nóvember sendi ekki nothæfa staðsetningu fyrstu 10 dagana. Þegar fyrsta merkið barst, þann 20. nóvember hafði hvalurinn synt meira en 200 sml til norðvesturs og var staddur um 70 sml norður af Vestfjarðakjálka. Dýrið hreyfði sig ekki mikið þá þrjá daga sem sendingar bárust eftir það.

Þann 15. nóvember voru merkt tvö dýr úr hópi 7- 10 hnúfubaka við Hrísey. Annar hvalurinn hélt sig nærri merkingarstað fyrstu tvo sólarhringana, en hélt þá úr Eyjafirði og til austurs.

Þann 20. nóvember var hvalurinn á Langanesgrunni, en eftir það bárust ekki upplýsingar um staðsetningu hvalsins í tvær vikur. Dagana 5. -7. desember bárust aftur upplýsingar, en þá var hnúfubakurinn staddur við Charlie Gibbs brotabeltið á Norður Atlantshafshryggnum og hafði því fært sig um 1200 sjómílur suður á bóginn á tveim vikum.

Hinn hvalurinn sem merktur var úr sömu hjörð sýndi gjörólíka hegðun og var mjög staðbundinn. Upplýsingar hafa fengist um staðsetningu hans á tímabilinu 15. nóvember 2014 – 13. janúar 2015, en á þeim tíma hefur hann haldið sig á grunnsævi á svæðinu milli Eyjafjarðar og Öxarfjarðar. Síðast heyrðist til hvalsins 13. janúar og var hann þá nálægt merkingarstað við Hrísey.

Athyglisvert er hve ólíkir ferlarnir eru fyrir þessa fjóra hnúfubaka sem merktir voru með nokkurra daga millibili í Eyjafirði þar sem þeir voru hluti af stórri hvalahjörð. Tvö dýrana hafa haldið langt suður í höf, hugsanlega á leið til æxlunarstöðva í sunnanverðu Norður Atlantshafi. Athyglisvert er að um einn og hálfur mánuður leið á milli brottfarartíma þessara hvala, en báðir fóru þó seinna en almennt hefur verið talið að væri fartími skíðishvala að hausti. Hinir tveir hvalirnir voru mun staðbundnari, en hafa ber í huga stuttan sendingatíma annars þeirra.

Rannsóknir þessar voru styrktar af RANNÍS. Verkefnisstjóri er Gísli Víkingsson en merkingarnar voru framkvæmdar af Tryggva Sveinssyni frá báti Hafrannsóknastofnunar Einari í Nesi.Sumar 2014

12. júní
Ekki hafa borist merki frá annarri steypireyðinni frá 4. júní 2014. Undanfarna tvo daga hefur hin steypireyðurin haldið sig í og norðan við Skjálfanda, mest á svæðinu milli Mánáreyja og Flateyjar. Sjá mynd.

10. júní
Engar upplýsingar hafa borist af ferðum annarrar steypireyðarinnar síðan 4. júní. Síðasta staðsetning var 330 km norð-norðaustur af merkingarstaðnum, en þá hafði hún ferðast tæplega 300 km leið á tveim sólarhringum. Á þeim sex sólarhringum sem tekist hefur að fylgjast með dýrinu hefur það ferðast a.m.k. 812 km, eða um 135 km/dag. Ekki er vitað hvað veldur sambandsleysinu, merkið gæti hafa losnað úr dýrinu, en einnig eru dæmi um að sendar hrökkvi í gang aftur eftir tímabundið sambandsleysi.

Hin steypireyðurin er enn á grunnsævi við Norðausturland. Hún hélt sig í og utan við Þistilfjörð á tímabilinu 31. maí til 4. júní, en var nálægt merkingastaðnum í Skjálfandaflóa að morgni 5. júní. Síðan hefur dýrið haldið sig á Skjálfandaflóa og Axarfirði. Heildarferðir hvalsins nema 862 km, eða 72 km/dag. Þessi steypireyður hefur því verið mun staðbundnari en hin sem merkt var sama dag.


4. júní kl. 10.
Önnur steypireyðurin hefur haldið áfram ferð sinni norður á bóginn og farið mjög hratt yfir. Síðasta sólarhringinn hefur meðalhraðinn verið um 5 sjómílur/klst. sem er svipað því sem mælst hefur mest fyrir hvali á fartíma að hausti eða vori. Hitt dýrið hefur verið nokkuð staðbundið á Þistilfjarðargrunni síðustu sólarhringa.

3. júní.

Flestar tegundir skíðishvala eru fardýr sem halda til á hlýjum hafsvæðum á veturna þar sem mökun fer fram og burður u.þ.b. ári síðar eftir tæplega árs meðgöngu. Á vorin halda hvalirnir til fæðuríkra kaldari hafsvæða þar sem þeir taka til sín meginhluta ársneyslu sinnar af fæðu á nokkrum mánuðum. Hafið umhverfis Ísland er eitt mikilvægasta fæðusvæði hvala í Norður Atlantshafi og hefur ársneysla þeirra 12 tegunda sem algengar eru hér við land verið metin um 6 milljónir tonna. Steypireyður er ein þessara tegunda, en hún er stærsta dýrategund sem lifað hefur á jörðinni og getur náð allt að 190 tonna þyngd. Ólík hinni náskyldu langreyði hefur steypireyðurin ekki náð að rétta út kútnum eftir ofveiðar fyrri alda og er hún enn sjaldgæf um víða veröld. Hér við land er talið að stofnstærðin nemi um 1000 dýrum.

Margt er óljóst varðandi stofngerð og far steypireyðar í Norður Atlantshafi og eru t.d. vetrarstöðvarnar óþekktar. Þó hefur sama dýrið greinst af ljósmyndum við Ísland að sumri og undan ströndum Máritaníu að vetri. Merkingar með gervitunglasendum hafa á undanförnum áratugum gefið mikilsverðar upplýsingar um ferðir hvala þótt enn skorti mjög á þekkingu á þessu sviði um allan heim. Hafrannsóknastofnun hefur staðið fyrir slíkum merkingum á nokkrum tegundum hvala þ.á.m. steypireyði. Sumarið 2009 tókst að fylgjast með steypireyði í 80 daga (hér) og árið 2013 í einn mánuð.

Þann 29. maí 2014 tókst að koma fyrir gervitunglasendum á tvær steypireyðar skammt norðan Skjálfandaflóa. Frá merkingu hefur annað dýrið haldið sig á litlu svæði innan við 25 sjómílur frá merkingarstað. Fyrstu tvo dagana hélt dýrið til kringum Grímsey en færði sig svo suður á bóginn í Skjálfandadjúp. Aðfararnótt 3. júní synti hvalurinn rösklega til norðurs og var staddur um 40 sjómílum norður af Hraunhafnartanga um morguninn. Hin steypireyðurin synti í norðaustur fljótlega eftir merkingu og hefur að mestu haldið til á Þistilfjarðargrunni. Að kvöldi 2. júní var hvalurinn mjög nálægt landi við Melrakkanes, sunnan Raufarhafnar.


Vetur 2012-2013

Úr þorskaneti í internet

Þann 28. september sl. bárust stofnuninni fregnir af hnúfubak sem flækst hafði í veiðarfæri netabáts í Eyjafirði þá um morguninn. Tryggvi Sveinson skipstjóri og rannsóknarmaður á Hafrannsóknastofnuninni fór með skipverjum á netabátnum að freista þess að losa hvalinn úr prísundinni og setja á hann gervitunglamerki. Vel gekk að losa hvalinn og koma merkinu fyrir á baki hvalsins. Dýrinu virtist ekki hafa orðið meint af þessu ævintýri og synti rösklega sinn veg. Hvalurinn hélt sig fyrst um sinn nálægt merkingarstað suðaustan við Hrísey. Helginni eyddi hnúfubakurinn út af Ólafsfirði og Héðinsfirði, en hélt þaðan lengra norður og var staddur í Eyjafjarðarál, rúmlega 10 sjómílur norður af Siglunesi að morgni mánudags 1. október. Hægt er að fylgjast með ferðum hnúfubaksins á vef Hafrannsóknastofnunar.Vetur 2011-2012

Í haust hefur verið fram haldið rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar á árstíðabundinni útbreiðslu og fari skíðishvala við Ísland. Rannsóknir þessar, sem byggjast á merkingum með gervitunglasendum, hafa nú þegar varpað nýju ljósi á ýmsa þætti er tengjast viðveru og fartíma hvala við landið. Þá hafa rannsóknirnar gefið fyrstu vísbendingar um aðsetur hrefnu að vetrarlagi.

Um hádegisbil þann 4. nóvember 2011 var merktur hnúfubakur norður af Arnarnesnöfum í Eyjafirði. Hvalurinn var þá í hópi 10-15 hnúfubaka í Eyjafirði. Engin merki bárust frá hvalnum fyrr en að kvöldi merkingardags og var dýrið þá statt nálæg mynni Eyjafjarðar. Hnúfubakurinn hélt sig á þeim slóðum allan næsta dag en að morgni 6. nóvember synti hvalurinn mjög ákveðið til norðvesturs og hafði að kvöldi þess dags lagt að baki rúmlega 70 sjómílur (130 km). Þann 7. nóvember synti hvalurinn rólega til norðvesturs og um hádegi 8. nóvember var hann staddur grunnt úti fyrir Hornströndum. Ferðir þessa hnúfubaks hingað til líkjast mjög ferðum hvals sem merktur var 21. október 2009. Hægt verður að fylgjast áfram með ferðum hvalsins hér.


Vetur 2010-2011

Hafrannsóknastofnunin hefur á undanförnum árum staðið fyrir tilraunum til að merkja hvali með gervitunglasendum. Markmið verkefnisins er að kanna ferðir skíðishvala við landið og far þeirra frá íslenskum hafsvæðum á haustin. Dagana 21. og 22. september 2010 var skotið merkjum í tvo hnúfubaka í Ísafjarðardjúpi og hafa þegar borist um gervitungl upplýsingar um ferðir annars þeirra . Sá hvalur var merktur þann 22. september kl. 14.45 um 6 sjómílum norðaustan við Ísafjarðarkaupstað og var hann í slagtogi við annan hnúfubak, en alls voru a.m.k. 5 hnúfubakar á svæðinu.
Frá merkingu hefur hvalurinn haldið sig í utanverðu Ísafjarðardjúpi innan 10 sjómílna frá merkingarstað.

Eins og í fyrri rannsóknum var merkjunum skotið úr sérútbúinni loftbyssu. Notuð var ný gerð merkja sem, auk þess að gefa upplýsingar um staðsetningu hvalsins, skráir þrýsting á hverjum tíma og fást þannig upplýsingar um köfunarhegðun dýrsins.

Hægt að fylgjast með ferðum hvalsins á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar. Ferðir hvalsins.

Vetur 2009-2010
Ferðir merktra hvala

Þann 28. janúar voru merktir tveir hnúfubakar skammt innan við Æðey í Ísafjarðardjúpi. Upplýsingar hafa borist um ferðir annars þeirra, en sá synti út úr Ísafjarðardjúpi daginn eftir merkingu. Þaðan hélt hvalurinn ákveðið til vesturs og inn í grænlenska lögsögu. 2. febrúar var hnúfubakurinn staddur um 460 km vestur af Snæfellsnesi, um 170 km frá strönd Grænlands. Þaðan hélt hann til suðurs úti fyrir ströndum Grænlands. Síðast bárust merki frá hvalnum að morgni 6. febrúar og var hann þá staddur um 280 km austur af Hvarfi. Litlar líkur er því á að fleiri sendingar fáist frá þessum hval. Hér má sjá kort af ferðum hvalsins.Þann 21. október 2009 voru tveir hnúfubakar í Eyjafirði merktir með gervitunglasendi.
Hægt er að nálgast kort af ferðum hvalanna hér og hér.

Annar hvalurinn hélt fljótlega norður í Íslandshaf og var staddur um 180 km norður af Skaga 26. október. Þaðan synti hnúfubakurinn til suðvesturs og eyddi 4 sólarhringum á litlu svæði um 100 km NV af Horni, en hélt svo að mynni Ísafjarðardjúps (2. nóvember). Þá lá leið hvalsins suður með vesturströnd landsins, fór aðeins inn í Breiðafjörð en var að morgni 6. nóvember kominn inn í Faxaflóa. Næstu fjóra daga hélt hnúfubakurinn sig í grennd við höfuðborgina á svæði milli Gróttu og Syðra Hrauns, en þá var stefnan tekin á Suðurnesin. Á tímabilinu 11. nóvember til 3. desember var hnúfubakurinn á litlu svæði í Stakksfirði rétt utan við hafnirnar í Keflavík, Njarðvík og Vogum. Helgina 20.-21.nóvember tókst með samvinnu Hafrannsóknastofnunarinnar og hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar að finna og ljósmynda hvalinn í Stakksfirði. Frá 21. nóvember var hvalurinn í slagtogi við annan hnúfubak. Upplýsingarnar nýttust fyrirtækinu til skoðunarferða með hundruði ferðamanna. Samanburður ljósmyndanna við stóran ljósmyndabanka yfir hnúfubaka í Norður Atlantshafi hefur nú leitt í ljós að sami hvalur sást á Skjálfandaflóa sumarið 2006, en er annars ekki þekktur úr myndasöfnum (sjá myndir).

Aðfararnótt 4. desember fór hnúfubakurinn vestur og suður fyrir Reykjanes þar sem hann hélt til næstu 5 vikurnar. Mestan hluta þess tíma var hvalurinn mjög nálægt landi milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka. Mikið líf var í sjónum á því svæði, en að sögn Kristins H. Skarphéðinssonar fuglafræðings hafa ekki sést þar fleiri sjófuglar í 30 ára sögu reglulegra talninga á svæðinu. Auk fuglanna sáust þar a.m.k. 3 hnúfubakar og tugir hnýðinga. Að sögn heimamanna var mikið um síld á Eyrabakkabug á þessum tíma og rak þar dauða síld á fjörur í janúar s.l. Ekki fannst þó mælanlegt magn síldar á Selvogsbanka í leiðöngrum RS. Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar í janúar. Fæðan (líklega síld) sem dró að sér þessa mergð sjófugla og hvala virðist því hafa verið bundin við svæðið alveg upp við landið. Þann 11. janúar synti hvalurinn vestur í Grindavíkurdjúp og þaðan rösklega suður í höf á næstu dögum. Síðasta sendingin barst frá hnúfubaknum þann 20. janúar, en þá var hann staddur við norðausturjaðar Charlie Gibbs misgengissvæðisins á Norður Atlantshafshryggnum, um 1000 km vestur af Írlandi. Meðalsundhraði hvalsins eftir að hann yfirgaf Selvogsbanka var rúmlega 4 sjómílur á klst. Alls hafði þá hvalurinn lagt að baki a.m.k. 6320 km frá því að hann var merktur í Eyjafirði 21. október 2009.

Athyglisvert er hve fyrri hluti ferðalagins líkist ferðalagi annars hnúfubaks á svipuðum árstíma árið 2008, en sá var einnig merktur í Eyjafirði (sjá kort).

Upplýsingar um staðsetningu hins hvalsins sem merktur var í Eyjafirði 21. október 2009 voru mun færri og slitróttari. Engin merki bárust fyrr en 9. nóvember, tæpum þrem vikum eftir merkingu. Þá var dýrið statt í Skagafirði. Síðustu upplýsingar um dvalarstað hvalsins bárust þann 12. desember og hann þá haldið til í Skagafirði í rúmlega mánuð.

Yfirumsjón með verkefninu er í höndum Gísla A. Víkingssonar hvalasérfræðings. Merkingarnar í Eyjafirði voru framkvæmdar af Tryggva Sveinssyni skipstjóra á bát Hafrannsóknastofnunarinnar Einari í Nesi. Hjalti Karlsson, útibússtjóri Hafrannsóknastofnunarinnar á Ísafirði tók einnig þátt í merkingaleiðangrinum í Ísafjarðardjúpi á bátnum Ingólfi ÍS.

Steypireyður merkt 23.júní
Síðustu merkjasendingar frá hvalnum voru 8. september.

Hnúfubakur merktur 1.júlí
Hnúfubakurinn er hættur að senda.

Ferðir merktra hvala


Febrúar 2009

Í einum loðnurannsóknaleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar vetur 2009 voru tveir hnúfubakar merktir með gervitunglasendi fyrir austan land. Staðsetningarmerki bárust frá öðru dýrinu sem merkt var síðdegis 1. febrúar 2009 á Hvalbaksgrunni.

Hnúfubakurinn hélt fyrst suðvestur með ströndinni, en yfirgaf landgrunnið til suðurs þann 3. febrúar. Eftir það synti hvalurinn í suðvestur en síðast barst merki frá dýrinu 13. febrúar á Charlie Gibbs misgengissvæðinu á Mið Atlantshafshryggnum. Þá hafði hnúfubakurinn synt að lágmarki 1900 km á 12 dögum. Ólíklegt er að fleiri merkjasendingar berist frá hvalnum þótt ekki sé það útilokað.

Skoða ferðir hnúfubaks


2008

Smellið á myndina til að stækka hana.

Hafrannsóknastofnunin fylgdist með ferðum hnúfubaks með gervitunglasendi. (uppfært 15. desember - ekki hefur heyrst frá dýrinu síðan 3. desember)

Í haust (2008) hefur Hafrannsóknastofnunin staðið fyrir tilraunum til að merkja hvali með gervitunglasendum. Markmið verkefnisins er að kanna ferðir hrefnu og annarra skíðishvala við landið og far þeirra frá íslenskum hafsvæðum á haustin. Merktir voru fjórir hvalir í Eyjafirði og hafa fengist upplýsingar um ferðir þriggja þeirra.

Skíðishvalir er fardýr, og halda fimm tegundir þeirra til á íslensku hafsvæði við fæðunám frá vori fram á haust, þótt einhverjir einstaklingar hafi sést hér flesta mánuði ársins. Nánast ekkert er vitað um ferðir hvalanna utan fæðuslóðar á sumrin og eru vetrarstöðvar flestra tegunda í Norður Atlantshafi alls óþekktar. Fyrstu áreiðanlegu vísbendingar um far og vetrarstöðvar hrefnu í Norður Atlantshafi fengust í viðamiklum rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar á árunum 2003-2007. Á tímabilinu ágúst til desember 2004 tókst, með aðstoð gervitunglasenda, að fylgjast með ferðum hrefnu frá Íslandi, 3,700 km leið suður til hafsvæðis vestur af Máritaníu.
Ólíkt öðrum skíðishvölum í Norður Atlantshafi eru þekktar einar vetrarstöðvar (æxlunarstöðvar) hnúfubaks, í Karabíska hafinu. Af greiningu einstaklinga á ljósmyndum og erfðafræðirannsóknum er ljóst, að hluti þeirra hnúfubaka sem halda til við Ísland á sumrin fer á þetta hafsvæði á veturna, en hluti hnúfubakanna er af öðrum meiði, hvers vetrarstöðvar eru óþekktar. Þá er einnig vitað að talsverður fjöldi hnúfubaka er við Ísland á veturna og hefur þá einkum sést á loðnumiðum.

Á tímabilinu 4. til 7. nóvember s.l. voru festir sendar á tvær hrefnur og tvo hnúfubaka í Eyjafirði. Eins og í fyrri rannsóknum var merkjunum skotið úr sérútbúinni loftbyssu og var rannsóknabátur Hafrannsóknastofnunarinnar, Einar í Nesi notaður til verksins. Nothæf merki hafa fengist reglulega úr báðum hnúfubökunum sem merktir voru 6. og 7. nóvember í Eyjafirði.

Ferðir annars hnúfubaksins eru sýndar á myndinni hér að ofan. Við skoðun kortsins er rétt að hafa í huga að engar merkjasendingar eru að nóttu til (til að spara rafhlöður) og því langt á milli punkta frá kvöldi fram á næsta morgun.

Hnúfubakurinn hélt sig í Eyjafirðinum fyrsta sólarhringinn eftir merkingu, en yfirgaf fjörðinn aðfaranótt 8. nóvember og hélt vestur með Norðurlandinu. Að morgni 9. nóvember var hvalurinn í mynni Trékyllisvíkur á Ströndum. Þann dag fikraði hvalurinn sig norðvestur á Þaralátursgrunn og fór síðan fyrir Horn um nóttina. Hnúfubakurinn færði sig suður með Vestfjörðum og var vestur af Bjargtöngum að morgni 11. nóvember. Hann hélt ákveðið áfram suður yfir daginn en virðist hafa hægt á sér yfir nóttina. Að morgni 12. nóvember var hvalurinn staddur við Malarrif á Snæfellsnesi og eyddi deginum í norðanverðum Faxaflóa. Næsta morgun (13. nóvember) var hvalurinn staddur rétt utan við Reykjavík en færði sig snemma í Garðsjó þar sem hann hélt sig fram á næsta dag. Frá því um miðjan dag 14. nóvember hefur hnúfubakurinn haldið sig mjög grunnt út af Keflavík, að mestu á svæði sem afmarkast af Helguvík í norðri og Njarðvík í suðri. Hvalurinn hélt sig á þessu litla svæði í heila viku og bendir ferðamynstrið til að hann hafi fundið æti á þessu svæði. Upplýsingar þessar voru notaðar til að leiðbeina hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu sem gerði út tvær ferðir dagana 14. og 16 nóvember til að skoða hvalinn. Í fyrra tilfellinu var hvalurinn í fylgd annars hnúfubaks og gáfu bergmálstæki skipsins til kynna talsvert magn af æti (líklega síld) nálægt landi þar sem hvalurinn hafði mest haldið sig. Þann 21. nóvember yfirgaf hnúfubakurinn Keflavíkursvæðið og hélt vestur á Eldeyjarbanka og þaðan suður fyrir Reykjanesið. Á tímabilinu 24. nóvember til 3. desember var hnúfubakurinn fyrir sunnan Reykjanesið, í Grindavíkurdjúpi, á Selvogsbanka og við Surtsey. Ekki hafa borist merki frá hvalnum síðan 3. desember og er ekki ólíklegt að sendibúnaðurinn hafi losnað úr dýrinu.
Dvöl hnúfubaksins við Keflavík og Njarðvík varð til þess að síldveiðiskip könnuðu svæðið nokkru síðar og fundu þar talsvert af síld. Í framhaldinu var þar góð síldveiði þar til smásíld gekk á svæðið og því var lokað 1. desember s.l. ásamt svæði við Vestmannaeyjar.

Upplýsingar um ferðir hins hnúfubaksins voru takmarkaðar í fyrstu. Hnúfubakurinn, sem merktur var 7. nóvember var staddur í Öxarfirði 12. nóvember, en sneri aftur í Eyjafjörðinn 14. nóvember og hefur verið þar síðan. Hefur hann að mestu haldið sig í innanverðum firðinum. Þann 20. nóvember fóru starfsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar til athugana á hnúfubaknum og öðrum hvölum í Eyjafirði. Þá var hann í fylgd með öðrum hnúfubak en einnig sáust þrjár hrefnur í firðinum þrátt fyrir slæmt skyggni. Síðast bárust merki frá hvalnum þann 2. desember.

Ekki hefur tekist eins vel til með merkingarnar á hrefnunum. Engin merki hafa borist frá annarri þeirra, og síðast heyrðist til hinnar þann 11. nóvember og var hún þá enn í Eyjafirði.

Yfirumsjón með verkefninu er í höndum Gísla A. Víkingssonar hvalasérfræðings, og merkingarnar voru framkvæmdar af Tryggva Sveinssyni leiðangursstjóra, Tómasi Árnasyni rannsóknamanni og Hlyni Ármannssyni útibússtjóra Hafrannsóknastofnunarinnar á Akureyri.


Myndir frá merkingum


» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is