Hafrannsóknastofnun

   
STOFNUNIN
RANNSÓKNIR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKUR
RÁÐGJÖF
Almennt um rannsóknir
Nytjastofnar
  Helstu nytjastofnar
Kortlagning hafsbotnsins
Sjórannsóknir
Fæðuhættir og fjölstofnatengsl
Fiskmerkingar
Eldi
Hvalir
Áhrif veiðarfæra á hafsbotn
Vöktun eiturþörunga
Dýrasvif
Firðir og grunnsævi
HELSTU NYTJASTOFNAR:
LANGA
Helstu nytjastofnar

HROGNKELSI

Mynd: ©Jón Baldur Hlíðberg - www.fauna.is

Cyclopterus lumpus (Linnaeus, 1758)

Heimkynni hrognkelsis eru beggja vegna í Norður-Atlantshafi. Þar veiðist hrognkelsi norðan frá Barentshafi og Hvítahafi suður til Portúgals. Þá er það einnig við Grænland og við austurströnd Norður-Ameríku frá Hudsonflóa í Kanada suður til Hatterashöfða í Bandaríkjunum. Við Ísland er hrognkelsi allt í kringum landið og er víða algengt.

Hrognkelsi er göngufiskur sem heldur sig úti á reginhafi hluta úr árinu en kemur upp á grunnmið til að hrygna síðari hluta vetrar og fyrri hluta vors. Þegar þau eru í úthafinu halda þau sig miðsævis og uppsjávar.

Fæða fullorðinna hrognkelsa er einkum ljósáta, uppsjávarmarflær, smáhveljur og fleira, en seiðin sem alast upp í þarabeltinu éta mest ýmis smádýr t.d. botnkrabbaflær, marflær og þanglýs. Mörg dýr éta hrognkelsi og má nefna hákarl og sel. Auk þess eru hrognkelsi ein aðalfæða búrhvala hér við land.

Hrognkelsi hrygna á vorin og fram á sumar. Hængurinn, rauðmaginn, kemur fyrr á hrygningastöðvarnar en hrygnan, grásleppan. Hrygningin fer fram á grjót- eða klapparbotni í þarabeltinu. Hrygnan festir hrognin við botninn í stórum klösum og hængurinn frjóvgar þau um leið. Í nokkrar vikur eftir hrygningu, á meðan hrognin þroskast, gætir hængurinn þeirra. Hann sér um að eggjunum berist nægjanlegt súrefni auk þess sem hann reynir að verja þau fyrir óvinum.

Fyrst í stað alast seiðin upp í þarabeltinu en eftir um það bil ár hverfa þau frá landi og halda sig uppsjávar í úthafinu þar til þau verða kynþroska. Hrognkelsin verða kynþroska 5-6 ára gömul og eru hængarnir þá 25-30 cm langir en hrygnurnar 34-40 cm.
» prenta

 

Leit
Hafrannsóknastofnun | Skúlagötu 4, 121 Rvík | s: 575 2000 | fax: 575 2001 | hafro@hafro.is